Landspítali og Sykehusinnkjøp í Noregi undirrituðu nýlega nýjan samning um aukið samstarf í lyfjainnkaupum, en samningurinn er viðauki við núverandi norrænt samstarf um lyfjainnkaup. Sykehusinnkjøp er opinber innkaupastofnun í eigu yfirvalda í fjórum heilbrigðisumdæmum í Noregi og sjá um kaup á lyfjum, tækjum og aðföngum fyrir alla spítala í landinu. Samstarfið miðar að því að bæði löndin fái betri kjör á lyfjum og að auka afhendingaröryggi,
Fyrstu sameiginlegu verkefnin á grundvelli samningsins eru annars vegar sameiginlegt útboð á HIV lyfjum og hins vegar á ónæmisbælandi lyfjum sem hafa verið framleidd sem líftæknihliðstæður (TNF alfa tálmar og interleukin hemlar). Stefnt er að því að auglýsa þessi útboð í lok árs 2024 með gildistöku samninga í byrjun árs 2026. Samanlagt verða áætluð árleg útgjöld um 450 milljónir NOK (um 6 milljarðar íslenskra króna) fyrir HIV-lyf og 750 milljónir NOK (tæpir 10 milljarðar íslenskra króna) fyrir TNF afla líftæknihliðstæður, án vsk. Notkun þessara lyfja á Íslandi samsvarar um 5-10% af innkaupum til norskra sjúkrahúsa..
Í ljósi smæðar íslenska lyfjamarkaðarins berast oft fá tilboð í lyfjaútboðum og lyfjaverð í kjölfar lyfjaútboða er fyrir vikið oft hærra hér á landi en í Noregi. Í síðasta útboði á HIV lyfjum hér á landi bárust aðeins tilboð í fimm af þeim tuttugu lyfjum sem voru boðin út.
Þessi nýi samningur á milli Íslands og Noregs er liður í auknu samstarfi Norðurlanda um lyfjainnkaup til hagsbóta fyrir öll löndin. Árið 2018 undirrituðu heilbrigðisráðherrar Noregs og Danmerkur viljayfirlýsingu varðandi sameiginleg innkaup á lyfjum og ári síðar var bætt við viðauka frá heilbrigðisráðherra Íslands. Síðan þá hafa þrjú sameiginleg lyfjaútboð Norðmanna, Dana og Íslendinga átt sér stað með góðum árangri og árið 2021 gátu Noregur og Ísland gerst aðilar að innkaupum Svía á COVID-bóluefnum í gegnum Evrópusambandið (EU).
Í þessum samnorrænu útboðum hefur verið óskað eftir tilboðum í eldri og þekkt lyf sem skortur hefur verið á, með það að markmiði að tryggja öruggar birgðir, samhliða því að innleiða samnorrænar umhverfiskröfur. Lyfjaskortur er sí algengari, bæði á Íslandi og í Noregi, og Samtök apóteka í Noregi greindu nýverið frá því að á hverjum degi komi upp samanlagt 1500 tilfelli þar sem apótek geta ekki afgreitt viðeigandi staðkvæmdarlyf fyrir sjúklinga. Þetta á við um öll meðferðarsvið og almenna heilsugæslu. Lyfjaskorturinn leggur byrði á allt kerfið, þar sem mikil vinna fer í að finna staðkvæmdarlyf, sem oft leiðir af sér kostnaðarsöm einskiptis innkaup.
Fyrsti liður í samstarfi Landspítala og Sykehusinnkjøp lýtur að áðurnefndum útboðum á HIV-lyfjum og TNF alfa tálmum, sem eru hvoru tveggja mjög mikilvægar lyfjameðferðir en líka kostnaðarsamar. Um er að ræða lyf sem eru á frumstigi eftir að einkaleyfi hefur runnið út (fasi 2-4). Með nýjum samningi getur Landspítali orðið aðili að völdum útboðum sem eru auglýst af Sykehusinnkjøp og þar með aðili að samningum þeirra.
Hulda Harðardóttir, lyfjafræðingur og verkefnastjóri hjá innkaupadeild Landspítala.
„Það er mikill hagur fyrir íslenska heilbrigðisþjónustu að taka þátt í sameiginlegum norrænum útboðum og með því verða hluti af stærra markaði. Lyfjakostnaður hefur lækkað, fleiri lyf hafa verið skráð og komið hefur verið í veg fyrir lyfjaskort. Við vonumst eftir svipaðri niðurstöðu með því að verða hluti af norskum innkaupum og hlökkum mikið til samstarfsins við Sykehusinnkjøp,“ segir Hulda Harðardóttir, lyfjafræðingur og verkefnastjóri hjá innkaupadeild Landspítala.
„Munurinn á því hvað Ísland og Noregur greiða í raun fyrir lyf getur verið mikill. Að finna allar mögulegar leiðir til sparnaðar er gríðarlega mikilvægt fyrir heilbrigðiskerfið í dag, óháð því hvaða land um er að ræða. Við höfum meiri slagkraft í gegnum þessa samvinnu. Noregur hefur einnig hag af því að taka að sér stærra hlutverk á alþjóðavettvangi á sviði lyfjainnkaupa,“ segir Nicolai Maric Bjørnæs, yfirmaður lyfjainnkaupa hjá Sykehusinnkjøp, og vonast til þess að þegar fram líða stundir muni Danmörk og önnur norræn lönd einnig taka þátt í þessum útboðum.
Sjá nánar á vef Sykehusinnkjøp.