Línuhraðall er mikilvægt tæki sem notað er í geislameðferð gegn krabbameini, en ríflega helmingur þeirra sem greinast með krabbamein fara í geislameðferð sem hluta af sínu meðferðarferli. Á geislameðferðardeild eru tveir línuhraðlar sem þjónusta tæplega 1.000 sjúklinga ár hvert. Um er að ræða endurnýjun á eldri línuhraðli deildarinnar, sem var orðinn 11 ára gamall. Kostnaður við hraðalinn og nauðsynlegan fylgibúnað er um 600 milljónir króna.
Nýi línuhraðallinn er sambærilegur þeim sem verið er að skipta út, en bæði tækin eru af gerðinni TrueBeam frá Varian. Nýja hraðlinum fylgir endurbættur myndatökubúnaður sem gefur mun skýrari tölvusneiðmyndir sem og meðferðarborð með fleiri stillingarmöguleikum. Hvort tveggja eykur nákvæmni og öryggi sem getur skilað sér í betri geislameðferð og minni aukaverkunum.
Endurnýjunin er fyrst og fremst mikilvæg til að tryggja rekstraröryggi enda er geislameðferðardeild Landspítala eini staðurinn á Íslandi þar sem veitt er geislameðferð. Eldri hraðallinn var farinn að sýna aukna bilanatíðni með tilheyrandi rofi á meðferðum.
Verkið gekk vel í góðu veðri en um 8 klukkutíma tók að hífa inn þá 22 kassa sem línuhraðallinn kom í. Stærsta stykkið var 5 tonn og tækjabúnaðurinn allur samtals 15 tonn. Nota þurfti sérstakan inngang og viðhafa ýmsar tilfæringar til að koma línuhraðlinum á sinn stað. Valið var að koma línuhraðlinum fyrir um helgi til að valda sem minnstu raski fyrir sjúklinga og starfsmenn.
Nú er tækið komið í hús, sem er stór áfangi í umfangsmiklu verkefni. Að skipta út tæki sem þessu krefst gríðarlegs undirbúnings frá starfsfólki deildarinnar, hönnunar- og framkvæmdadeild ásamt starfsfólki heilbrigðistækni. Næst fer fram vinna við að setja tækið saman og fínstilla. Sú vinna er umfangsmikil og inniheldur m.a. nákvæmar geislaferilmælingar og útreikninga sem framkvæmdar eru af eðlisfræðingum deildarinnar. Áætlað er að tækið verði tekið í notkun í nóvember.
Í myndbandinu er rætt við Hönnu Björgu Henrysdóttur, eðlisfræðing og deildarstjóra geislameðferðardeildar Landspítala, sem segir frá mikilvægi nýja línuhraðalins í starfsemi deildarinnar.
Þorkell Þorkelsson, ljósmyndari Landspítala, var á svæðinu og smellti af nokkrum myndum.