Á Vísindavöku geta gestir kynnt sér vísindin á lifandi hátt í beinu samtali við rannsakendur og vísindafólk frá háskólum, stofnunum og fyrirtækjum í íslensku vísindasamfélagi.
Landspítali verður með bás á hátíðinni þar sem má sjá sýnishorn af hinu fjölbreytta vísindastarfi sem á sér stað á spítalanum:
- Landspítali í samstarfi við Háskólann í Reykjavík (HR) - Heilbrigðisverkfræði
Landspítalinn í samstarfi við heilbrigðisverkfræðisetur HR vinnur að fjölbreyttum verkefnum til efla áhrif sérfræðiþekkingar heilbrigðisverkfræðinnar í klínísku umhverfi. Í dag verður sérstaklega kynntur gagnabankinn GAMLI (Gagnvirk Myndgreiningar LÍffærafræði) eða RAIL (e. RadioAnatomical Interactive Library) sem grundvallaður á þrívíðri líkangerð út frá CT og MR sneiðmyndarannsóknum kringum flókin líffræði- og læknisfræðileg vandamál. Hann er aðgengilegur gegnum tölvur eða síma til bæði kennslu og þjálfunar með sýndarveruleikagleraugum sem nýtist til betri kennslu og betri undirbúnings nema og sérfræðinga við lausnir flókinna fyrirbæra.
- Landspítalinn í samstarfi við Sidekick - Fjarheilbrigðisþjónusta hjartasjúklinga
Rannsóknir sýna að til að breyta um lífstíl þarf meiri stuðning og eftirfylgni en hefðbundin heilbrigðisþjónusta er í stakk búin að veita.
Með stafrænum lausnum eins og appi í síma er unnt að bæta þjónustu við skjólstæðinga og valdefla þá. Hægt er að vera í sambandi við skjólstæðinga, veita samfelldan fjarstuðning og fræðslu ásamt því að fjarvakta einkenni í rauntíma. Hjartasvið Landspítalans í samvinnu við Sidekick Health er að rannsaka ávinning þess að nota sérsniðið app í síma fyrir skjólstæðinga með hjartabilun annars vegar og kransæðasjúkdóm hins vegar.
- Landspítali-DaVinci aðgerðarþjarki
Á síðustu árum hefur svokallaður aðgerðarþjarki (róbót) verið tekinn í notkun á Landspítalanum Búnaðurinn nýtist til margvíslegra skurðaðgerða, sérstaklega þó við þvagfæraskurðlækningar sem og aðgerðir á grindarholslíffærum kvenna. Aðgerðir með þessari aðferð eru inngripsminni en ella, bati er skjótari og hægt að hlífa betur nærliggjandi líffærum og viðkvæmri starfsemi. Í raun er um að ræða framlengingu á fingrum skurðlæknisins. Allar hreyfingar verða nákvæmari og sýn skurðlæknisins á aðgerðarsvæðinu framúrskarandi.
- Tiro talgervill
Tiro er fremst á sviði talgreiningar á íslensku en það er tæknin sem breytir tali yfir í texta. Talgreining (e. Automatic Speech Recognition) hefur þróast hratt á undanförnum árum og er nú hægt að umrita íslenskt talmál yfir í texta í rauntíma með mikilli nákvæmni. Textun sem þessi getur ásamt öðru gagnast læknum og öðru heilbrigðisstarfsfólki að lesa inn upplýsingar sem umritast sem texti í sjúkraskrá. Þessi tækni gagnast einnig þeim sem eru að læra ný tungumál og geta með textun bæði hlustað og lesið tungumálið á sama tíma.
Hér má sjá dagskrá hátíðarinnar.