Verkefnið hófst formlega í síðustu viku þegar fyrstu sjúklingarnir byrjuðu í fjarvöktun.
Norska fjarvöktunarkerfið Dignio, sem notað er í þessu verkefni, er nú þegar í notkun á íslenskum markaði og hefur verið að skila góðum ávinningi. Markmið tilraunaverkefnisins er tvíþætt og snýr annars vegar að spítalanum og hins vegar að sjúklingum.
Í fyrsta lagi eru markmiðin þau að ná að bregðast fyrr við versnun sjúklinga með snemmtækri íhlutun, koma þannig í veg fyrir frekari versnun og mögulegri komu á Bráðamóttöku eða innlögn á spítalann. Einnig eru vonir bundnar við fækkun heimavitjana, og fyrirkomulagi á göngudeild verður breytt þar sem sjúklingar eru kallaðir inn þegar þeir þurfa á þjónustu að halda frekar en í föst innlit. Í öðru lagi eru markmið fyrir sjúklinga að auka heilsulæsi þeirra, að sjúklingar taki meiri ábyrgð á eigin heilsufari, öryggi þeirra aukist og lífsgæði verði betri.
Framtíðarmöguleikar þessa verkefnis eru miklir og eru vonir bundnar við að ávinningur verkefnisins verði í takt við markmiðin, og að fleiri tækifæri muni skapast innan spítalans við yfirfærslu þjónustunnar á fleiri deildir og efla þar með þjónustu við fleiri sjúklingahópa.
Á myndinni má sjá Má Kristjánsson framkvæmdastjóra bráða-, lyflækninga- og endurhæfingarþjónustu, Ómar Örn Jónsson Framkvæmdastjóra Velferðar og ráðgjafar hjá ÖMÍ, Diljá Guðmundsdóttur sérfræðing í heilbrigðistækni hjá ÖMI, Önnu Maríu Sighvatsdóttur sérfræðing í heilbrigðistækni hjá ÖMI og Signýju Jónu Hreinsdóttur verkefnastjóra á Verkefnastofu Landspítala. Á myndina vantar: Sigríði Erlu Sigurðardóttur og Hrönn Árnadóttur, hjúkrunarfræðing í Lungnaheimateymi.