Ásamt Aðalsteini komu Guðrún dóttir hans og synirnir Hákon og Sigfús einnig til að gefa blóð. Aðalsteinn, sem gefið hefur undanfarin 50 ár, byrjaði sem blóðgjafi þegar Vilhelmína kennari hans í náttúrufræði í MR gaf nemendum frí til að gefa blóð.
Aðalsteinn situr í stjórn Blóðgjafafélags Íslands og hvetur hann öll sem geta gefið blóð að gera það. „Blóð er ekki hægt að framleiða á tilraunastofu. Það þarf óeigingjarnt framlag til að þessi hluti heilbrigðiskerfisins haldist gangandi“ segir Davíð Stefán Guðmundsson, formaður Blóðgjafafélags Íslands.
Blóðgjöfin sjálf tekur aðeins um 10 mínútur en reikna má um klukkutíma í heildartíma með viðtali fyrir gjöf og rólegheitum á kaffistofunni eftir gjöf. Vönum blóðgjöfum getur staðið til boða að gefa hluta af blóði sínu, annaðhvort blóðflögur eða blóðvökva.
Aðalsteinn og synir hans voru að þessu sinni í blóðhlutagjöf, sem tekur 90 mínútur, en þá er notuð blóðfrumuskilja sem skilur frá þann blóðhluta sem safna á, en aðrir hlutar blóðsins renna aftur til blóðgjafans.
Fréttastofa Stöðvar 2 mætti einnig á svæðið og má sjá frétt þeirra hér.