Mikil endurnýjun hefur átt sér stað á göngudeild gigtar og sjálfsofnæmis Landspítala. Ekki aðeins eru komnir fjórir nýir gigtarlæknar til starfa, heldur hefur nýtt ómtæki verið tekið í gagnið sem nýtist til að minnka bið eftir greiningu gigtarsjúkdóma.
Ljósmyndari Landspítala, Þorkell Þorkelsson, leit við á gigtardeildinni á Eiríksstöðum og fangaði nokkur augnablik á mynd.
Gigt getur verið margvísleg og talið er að allt að fimmtungur Íslendinga fái gigt einhvern tímann á ævinni. Sjúkdómurinn getur verið vægur en hann getur líka verið lífshættulegur. Gigt fylgja verkir, þreyta og slappleiki og oft veikara ónæmiskerfi.
Á göngudeildinni á Landspítala starfa jafnt læknar sem hjúkrunarfræðingar en einnig sjúkraliðar og atferlisfræðingur. Sjúklingar eiga því kost á þverfaglegri meðferð sem miðar að því að auka lífsgæði. Hluti þeirra þarf að koma í reglulega lyfjagjöf og þá er öllu kostað til að taka vel á móti þeim.
„Nýja ómtækið nýtum við til að greina bólgur í liðum og æðum. Með aðstoð þess getum við í raun greint fjóra sjúklinga á sama tíma og annars tekur að leggja mat á sjúkdóm eins einstaklings. Þetta er því nokkurs konar hraðskimun sem hentar vissulega ekki í öllum tilfellum en getur leitt til þess að fólk kemst fyrr í meðferð.“
Katrín Þórarinsdóttir, yfirlæknir gigtarlækninga.