Þann 8. nóvember 1895 uppgötvaði Wilhelm Conrad Röntgen röntgengeislann sem umbylti allri heilbrigðisþjónustu hvað varðar greiningu sjúkdóma og meðferðar þeirra.
Á röntgendeginum í ár er vakin athygli á störfum geislafræðinga með slagorðinu: Geislafræðingar sjái það ósýnilega (Radiographers: Seeing the Unseen).
Þorkell Þorkelsson, ljósmyndari Landspítala, heimsótti röntgendeildir Landspítala í vikunni og fræddist nánar um starfsemina.
Myndgreiningardeild Landspítala leitast við að veita öllum fljóta og góða þjónustu sem þangað leita. Skjólstæðingar koma á röntgendeildina frá öllum deildum spítalans sem og öðrum sjúkrastofnunum.
Á deildinni starfar þverfaglegt teymi fagstétta. Geislafræðingar eru fjölmennasta stéttin en þar á eftir koma röntgenlæknar. Þar starfa einnig m.a. sérnámslæknar, lífeindafræðingar, náttúrufræðingar, lyfjafræðingar, sjúkraliðar, eðlisfræðingur og ómissandi hópur sérhæfðra starfsmanna og ritara.
Í myndgreiningu á sér stað stöðug tækniþróun og þurfa allar fagstéttir að tileinka sér nýjustu tækni og aðferðir. Röntgenlæknar túlka rannsóknir og skrifa niðurstöður. Þeir annast einnig ómskoðanir, gegnumlýsingar og æðaþræðingar.
Geislafræðingar framkvæma flestar rannsóknir á deildinni. Má þar nefna röntgen-, ísótópa-, tölvusneiðmynda-, jáeindaskanna- og segulómrannsóknir. Á myndgreiningadeild eru framkvæmdar um það bil 130 þúsund rannsóknir árlega.
Starfsfólk myndgreiningadeildar þarf að takast á við margar áskoranir í flóknu starfsumhverfi. Á deildinni eru framkvæmdar allar almennar og sérhæfðar myndgreiningarrannsóknir, sem og sérhæfðar rannsóknir og inngrip á æðarannsóknarstofu.