Tilgangur Krabbameinsgáttar er að styðja með stafrænum hætti við aðgengi og samfellda þjónustu sjúklinga með krabbamein, efla þátttöku þeirra í meðferð og sjálfsumönnun, bæta líðan og öryggi þeirra og stuðla að jákvæðum útkomum.
Þróun gáttarinnar hófst á Landspítala árið 2018 í samstarfi við Krabbameinsfélagið, Embætti landlæknis, Origo/Helix, HÍ og HR. Gáttin er hluti af Meðverueiningu Sögu og nýrri meðferðareiningu í Heilsuveru, og tengist sjúkraskrá sjúklings. Notendaprófanir voru gerðar árin 2020-2021, og innleiðing ásamt fýsileikarannsókn með notendum fór fram á dagdeild blóð- og krabbameinslækninga frá nóvember 2021-júní 2022. Síðan þá hefur gáttin verið þróuð áfram og innleidd á fleiri deildir og stofnanir.
Gáttin býður upp á þrenns konar gagnreynda virkni:
- Sjálfsmat sjúklinga með spurningalistum og fjarvöktun með viðvaranakerfi. Sjúklingar svara spurningum um einkenni, líðan og þarfir með ESASr og DT&PL. Meðferðarteymið fylgist með og bregst við rauðum og gulum skorum.
- Miðlun fræðsluefnis. Fræðsluefni úr gæðahandbók spítalans er tengt gáttinni. Annars vegar sendir meðferðarteymi valið efni úr Meðveru og hins vegar fá sjúklingar sent sjálfvirkt efni byggt á svörum spurningalista.
- Samskipti milli sjúklings og meðferðarteymis. Skilaboðavirkni gáttarinnar sem eykur upplýsingaflæði og gagnkvæman stuðning.
Meðferðarteymið hefur heildaryfirsýn yfir virkni gáttarinnar í Meðveru fyrir hópa og einstaklinga, og sjúklingurinn hefur aðgang að spurningalistum, fræðsluefni og samskiptum á einum stað Í Heilsuveru.
Niðurstöður fýsaleikarannsóknarinnar, birtar í árslok 2023 (https://doi.org/10.2196/50550), voru jákvæðar og studdu áframhaldandi notkun og þróun gáttarinnar. Yfir 80% þátttakenda töldu gáttina gagnlega, veita öryggistilfinningu og vildu halda áfram að nota hana. Þátttaka í eigin meðferð jókst, einkenni minnkuðu, væntingar til fræðslu minnkuðu og lífsgæði bötnuðu. Þátttaka krabbameinssjúklinga í ESASr spurningalistum hefur jafnframt aukist úr 28% í 61% frá innleiðingu Krabbameinsgáttarinnar.