Greinin Approaching hypercalcemia in Monoclonal Gammopathy of Undetermined Significance: Insights from the iStopMM study byggir á rannsókn Ástrúnar sem hún vann fyrir B.Sc. verkefni sitt á þriðja ári læknisfræðinnar undir handleiðslu Sæmundar Rögnvaldssonar, sérnámslæknis í lyflækningum, og Helgu Ágústu Sigurjónsdóttur, sérfræðings í lyflækningum og innkirtla- og efnaskiptalækningum.
Í rannsókninni voru greind gögn rúmlega 2.500 manns sem greindust með forstig mergæxlis í átakinu Blóðskimun til bjargar. Markmiðið var að skoða hvort hátt gildi kalks í blóði fólks með forstig þýddi að það væri komið með mergæxli, en það er meðal greiningarskilmerkja krabbameinsins. Í ljós kom að í langflestum tilvikum voru orsakir hás kalks aðrar en mergæxli.
Að sögn Ástrúnar er það mikill heiður að hafa fengið greinina birta í Blood. „Manni fannst það vera að skjóta á tunglið að senda greinina þangað inn en svo heppnaðist það,“ segir hún. Þetta er ekki fyrsta viðurkenningin sem Ástrún fær fyrir rannsókn sína en hún hefur hlotið þrenn verðlaun fyrir besta vísindaágripið: á lyflæknaþingi í Hörpu, á norrænu mergæxlisráðstefnunni Nordic Myeloma Study Group og á blóðlæknaþingi American Society of Hematology.
Ástrún segir að ekki standi til að byggja frekar ofan á þessa rannsókn en hún sjái fyrir sér að í næstu rannsóknum sem tengist mergæxlum verði áfram lögð áhersla á klíníska nálgun. Spurð hvort hún sé að íhuga að sérhæfa sig í blóðmeinafræði segist hún ekki hafa tekið ákvörðun um það. Hún vilji þó gjarnan blanda saman klíník og rannsóknum. „Sama hvaða sérgrein maður velur þá er gott að vera með góðan grunn í rannsóknarvinnu,“ segir Ástrún að lokum.