Lífvísindasetur er formlegt samstarf rannsóknahópa í sameinda- og lífvísindum og eru margir vísindamenn Landspítala sem eiga aðild þar að. Að sögn Hans Tómasar eru tveir kjarnar á Landspítala sem tengjast Lífvísindasetri: Ónæmisfræðideild sem er með frumuflæðiflokkun og erfða- og sameindalæknisfræðideild sem sér um raðgreiningar.
Styrkurinn verður m.a. nýttur til að samnýta lífupplýsingafræðilega þekkingu milli stofnana, samnýta innkaup og styrkja raðgreiningakjarnann með því að borga undir starfsmann þar. Þá verður stofnaður vettvangur fyrir rannsakendur og nemendur í STEM greinum til að para sig saman þvert á stofnanir og settir upp verkferlar um nýtingu rannsóknainnviða í erfðatækni og smásjármyndgreiningu auk úrvinnslu og varðveislu gagna.