Alls framkvæmdu þeir þá 49 aðgerðir vegna ökkla- og úlnliðsbrota, sem eru dæmigerð meiðsl þegar fólk rennur og dettur, en það samsvarar rúmlega 50% fjölgun frá októbermánuði.
Hálkan gerir sjaldan boð á undan sér og því getur starfsfólk bæklunarskurðdeildar ekki skipulagt sig fyrirfram. Þá er mikilvægt að geta brugðist hratt við þegar sjúklingar með brotin bein mæta hver á fætur öðrum á spítalann.
Hjörtur Friðrik Hjartarson, forstöðulæknir skurðlækninga, segir að hver mínúta sé nýtt til fulls á skurðstofunum. Lögð er áhersla á að reyna að láta þessa skyndilegu fjölgun bráðaaðgerða ekki tefja alla starfsemi deildarinnar og er brugðist við með því að fjölga skurðstofum, t.d. um helgar, kalla fólk inn á aukavaktir og fjölga legudeildarplássum.
Að sögn Hjartar skilaði þetta sér í því að meðalbiðtími eftir bráðaaðgerð á bæklunarskurðdeildinni hélst innan viðmiðunarmarka í desember.