Sigurbergur útskrifaðist úr Læknadeild Háskóla Íslands árið 1990, tók síðan sérnám í svæfinga- og gjörgæslulækningum við Sahlgrenska Háskólasjúkrahúsið í Gautaborg og lauk doktorsprófi innan sérgreinarinnar frá Gautaborgarháskóla árið 2000. Jafnframt lauk hann meistaranámi varðandi stjórnun innan heilbrigðiskerfa og lýðheilsu árið 2010 frá HR.
Hann hefur starfað sem sérfræðingur við Svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítalans síðan 2002. Þar af sem yfirlæknir á svæfingadeild í Fossvogi 2006 - 2014 og sem yfirlæknir á gjörgæsludeild Hringbrautar frá 2015. Jafnframt sem dósent við Læknadeild Háskóla Íslands frá 2003 og sem prófessor frá 2020.
Sigurbergur hefur þannig komið að stjórnun, stefnumótun, gæðastarfi, innleiðingu breytinga, kennslu, handleiðslu og margvíslegu rannsóknarstarfi á þessum tíma auk klínískrar vinnu.
„Það eru mörg spennandi verkefni framundan hjá okkur á gjörgæsludeildunum að loksins sameinast í nýju sjúkrahúsi. Við höfum verið að vinna að samruna gjörgæsludeildanna með margvíslegum hætti undanfarin ár og vonandi fer lokahnykkurinn á því ferli að nálgast. Í þeim önnum þarf þó á sama tíma að gæta þess að halda uppi gæðum þjónustunnar og hún sé metin, að kennslu sé sinnt og rannsóknir stundaðar. En eins og í tónlist næst einungis árangur með góðu samspili og samhljómi margra radda sem við munum leitast við að fá fram og þannig vonandi leiða til framfara og eflingu klínísku þjónustunnar.“