Farsóttareiningin verður til með flutningi göngudeildar smitsjúkdóma og bráðadagdeildar lyflækninga á B-1, en þær voru áður á sitthvorum staðnum innan sjúkrahússins. Á deildunum tveimur verður alla jafna hefðbundin starfsemi en komi upp faraldur í þjóðfélaginu er með lítilli fyrirhöfn hægt að breyta deildinni í farsóttareiningu til að sinna sérstaklega þeim sem af faraldrinum veikjast. Starfsfólk á B-1 býr yfir fagþekkingunni sem þarf til að kljást við farsótt en á deildinni er einnig að finna sérútbúin herbergi með sérstöku loftræstikerfi.
Spítalinn nú betur í stakk búinn til að takast á við farsótt
Að sögn Más Kristjánssonar, framkvæmdastjóra bráða-, lyflækninga og endurhæfingaþjónustu, er mikilvægi farsóttareiningar einkum fólgið í því að nú er spítalinn betur í stakk búinn en áður til að takast á við farsótt með því að vera í betri aðstöðu til að taka á móti sjúklingum og í betri tengslum við rannsóknastofur fyrir blóð- og myndgreiningu.
Alma hélt stutta tölu í heimsókninni og sagði alla sem komið hefðu að því að setja nýju farsóttareininguna á laggirnar hafa unnið mikið þrekvirki. Hún vildi þakka þeim fyrir og óska öllum til hamingju með opnunina.
Fjögur stig í nýtingu húsnæðisins
Komi upp nýr faraldur mun á farsóttareiningunni fara fram starfsemi sambærileg þeirri sem fór fram á Birkiborg í COVID-19 heimsfaraldrinum. Þar var að finna sambland af fjarþjónustu, þar sem byggt var á samskiptum við sjúklinga með COVID-19, og göngudeildarþjónustu, þar sem sjúklingar voru metnir af heilbrigðisstarfsmönnum með tilliti til alvarleika veikinda. Á Birkiborg var unnt að taka blóðpróf auk rækilegrar klínískrar skoðunar. Þá var hægt að gefa sjúklingum stuðningsmeðferð í formi vökvagjafar í æð, lyf til innöndunar og í æð svo nokkuð sé nefnt. Aftur á móti var Birkiborg í gömlu og óhentugu húsnæði og þurfti að flytja alvarlega veikt fólk með sjúkrabíl yfir í Fossvog. Því var ákveðið að útbúa sérstaka farsóttareiningu innan sjúkrahússins sjálfs.
Í starfseminni á B-1 er gert ráð fyrir fjórum stigum nýtingar húsnæðisins, með tilliti til þess hvort að faraldrar eða farsótt knúi dyra og krefji um sérstakt viðbragð, en auk göngudeildar smitsjúkdóma og bráðadagdeildar lyflækninga þá er sjúkra- og iðjuþjálfun einnig að finna á ganginum. Grænt stig (stig 1) er við hefðbundna starfsemi, gult stig (stig 2) er þegar faraldrar á borð við alvarlegar öndunarfæra- eða iðrasýkingar eru í gangi og einingin er virkjuð að hluta sem farsóttareining. Rauð stig (stig 3 og 4) eru þegar faraldur á heimsvísu skellur á og ef að blæðandi veirusótt kemur upp. Hin mismunandi stig auka þá hlutdeild bráðadagdeildar og smitsjúkdóma í húsnæðinu sem að á stigum 3 og 4 leiðir til þess að engin starfsemi önnur er á B-1 nema sem tengist viðkomandi farsótt.