Guðrún Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar, skorar á önnur félög í eigu Festi til að fylkja liði í Blóðbankann og leggja sitt af mörkum. Málefnið er Guðrúnu sérstaklega hugleikið en faðir hennar hefur gefið blóð 250 sinnum.
Starfsmenn Krónunnar voru léttir í lund þegar þeir tylltu sér í biðrými Blóðbankans. Sumir voru að gefa í fyrsta sinn en aðrir höfðu komið áður. Þessi sami hópur hyggst hér eftir gefa saman blóð á fjögurra mánaða fresti, en reglum samkvæmt mega karlar gefa blóð á þriggja mánaða fresti en konur þurfa að bíða í fjóra mánuði.
„Blóðbankinn er banki allra landsmanna en til að hann geti sinnt sínu hlutverki þurfum við öll að leggja inn,“ segir Guðrún. „Blóðgjöf er ein af undirstöðum heilbrigðiskerfisins og það vantar fleiri blóðgjafa. Það er einfalt að gerast blóðgjafi og við hvetjum eindregið þau sem það geta til að taka af skarið og skrá sig. Við viljum einnig fá fleiri fyrirtæki til að taka þátt og skorum því á okkar systurfélög í samstæðu Festi að láta einnig til sín taka. Þetta er einföld leið til að láta gott af sér leiða og þetta skiptir sköpum fyrir þau sem þurfa á að halda. Þannig að við skulum bretta upp ermar, skrá okkur til leiks og vera hreyfiafl í því að fá fleiri til að gerast blóðgjafar.“
Blóðbankinn þjónar öllu landinu og til að mæta þörfum samfélagsins þarf hann um 70 blóðgjafa á dag. Blóðbankinn er staðsettur á Snorrabraut í Reykjavík og á Glerártorgi á Akureyri. Þá er Blóðbankabíllinn á ferðinni tvisvar til þrisvar sinnum í viku og heimsækir hann þá stærri þéttbýliskjarna í grennd við höfuðborgarsvæðið, menntaskóla, háskóla og ýmis fyrirtæki.
Hér er hægt að panta tíma í blóðgjöf og hér er hægt að skoða næstu áfangastaði Blóðbankabílsins.