Gjöfin inniheldur meðal annars æfingabúnað fyrir heilbrigðisstarfsfólk til að æfa nálaruppsetningu í æð og brunn, þroskaleikföng, föndurvörur, bolta, kubba, púsl, perlur, ljós og skynjunarmottur.
Þá styrkti sjóðurinn Trúðavaktina en hún kemur á spítalann einu sinni í viku til að skemmta börnunum sem þar dvelja. Heildarandvirðið nemur um 1,3 milljónum króna.
Tilgangur sjóðsins er að heiðra minningu Elvíru Maríu með því að styrkja góðgerðarfélög og stofnanir sem hafa stutt fjölskyldu Elvíru Maríu í gegnum veikindi og andlát hennar sem og að styðja við fjölskyldur barna sem glíma við alvarleg veikindi.
Þau Sigrún Sigmundsdóttir og Sigurður Þór Ómarsson, foreldrar Elvíru Maríu, komu fyrir skömmu á leikstofu Barnaspítala Hringsins ásamt Katrínu Unu og Ómari, systkinum Elvíru Maríu, og afhentu gjöfina. Ljósmyndari Landspítala tók meðfylgjandi myndir.
Barnaspítalinn þakkar innilega fyrir þessa rausnarlegu gjöf.