Þjónustan er rekin af reyndum hjúkrunarfræðingum innan krabbameinsþjónustunnar sem fara í heimavitjanir á morgun- og kvöldvöktum alla daga vikunnar en auk þess verður bakvakt með vaktsíma á næturnar sem sjúklingar geta hringt í ef þörf er á.
Helstu verkefnin til að byrja með eru eftirlit, vökva- og stuðningslyfjagjafir og sýklalyfjagjafir. Stefnt er á að byrja að gefa ákveðin krabbameinslyf heima og í sumum tilvikum að vera stuðningur fyrir sjúklinga sem geta gefið sér þessi lyf sjálfir. Í raun má segja að það séu engin takmörk á því hversu langt þessi þjónusta mun þróast en vonir eru bundnar við að sjúklingar upplifi þetta sem örugga og góða þjónustu veitta af fagfólki sem býr yfir mikilli reynslu af þjónustu við krabbameinsgreinda.
Reiknað er með mikilli aukningu á greiningum krabbameina í nánustu framtíð. Bæði vegna þess að þjóðin er að eldast og framfarir innan heilbrigðisþjónustunnar hafa verið miklar og eru meðferðir við krabbameinum ekki undanskildar. Niðurstaðan er sú að það eru fleiri lifandi hverju sinni sem hafa greinst með krabbamein og í stað þess að vera hinn lífsógnandi sjúkdómur sem krabbamein hafa verið í gegnum tíðina er hann í mörgum tilfellum orðinn langvinnur sjúkdómur sem fólk lifir með til fjölda ára.
Viðmælendur í myndbandinu eru Halldóra Hálfdánardóttir, forstöðuhjúkrunarfræðingur krabbameinsþjónustu Landspítala, Þórunn Hilda Jónasdóttir, þjónustu- og viðburðarstjóri hjá Krafti og Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Krabbameinsfélaginu.