Aðalbjörg lauk meistaraprófi í lögfræði frá lagadeild Háskóla Íslands árið 2013 og hefur hlotið málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi.
Aðalbjörg hefur yfir áratuga skeið starfar í opinberri stjórnsýslu og hefur umfangsmikla þekkingu og reynslu á sviði heilbrigðislöggjafarinnar.
Með námi og fyrstu árin eftir útskrift starfaði Aðalbjörg á lögmannsstofunni CATO Lögmenn. Því næst starfaði hún hjá Sjúkratryggingum Íslands og voru helstu verkefni hennar þar vinnsla ákvarðana um rétt til bóta úr sjúklingatryggingu. Þá starfaði hún sem lögfræðingur á skrifstofu innviða heilbrigðisþjónustu í heilbrigðisráðuneytinu. Aðalbjörg hóf störf á Landspítala sem lögfræðingur á skrifstofu forstjóra í janúar 2023.
„Að taka við starfi persónuverndarfulltrúa á einni stærstu og mikilvægustu stofnun landsins er bæði spennandi og krefjandi áskorun. Ég er þakklát fyrir það traust sem mér hefur verið sýnt og hlakka til að takast á við ný verkefni innan Landspítala. Meginhlutverk mitt verður að tryggja að spítalinn uppfylli kröfur persónuverndarlöggjafarinnar en hér á sér stað umfangsmikil vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga. Það er því mikilvægt að við starfsfólk Landspítala séum meðvituð um persónuvernd og upplýsingaöryggi í störfum okkar.“
Hlutverk persónuverndarfulltrúa er að sinna innra eftirliti, upplýsa og ráðleggja vegna persónulöggjafarinnar, veita ráðgjöf við framkvæmd mats á áhrifum persónuverndar auk þess að vera tengiliður við einstaklinga og Persónuvernd. Ávallt er hægt að leita til persónuverndarfulltrúa spítalans með málefni er varða persónuvernd í gegnum netfangið personuvernd@landspitali.is