Olga Birgitta útskrifaðist úr hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands árið 2008. Frá þeim tíma hefur hún starfað á hjartadeild 14EG og tók við stöðu aðstoðardeildarstjóra 2014. Árið 2018 lauk hún diplómanámi í hjúkrunarstjórnun frá HÍ.
Samhliða starfi sínu sem aðstoðardeildarstjóri hefur Olga tekið innlagnavaktir á vegum flæðisdeildar og sinnt kennslu á vegum menntadeildar um árabil ásamt því að hafa unnið að ýmsum umbótaverkefnum sem snúa að flæði sjúklinga, teymisvinnu, mannauði, nemum og kennslu.
„Það er mér sannur heiður að taka við sem deildarstjóri hjartadeildar og ég geng til verks full þakklætis, auðmýktar og tilhlökkunar. Á þessari stærstu legudeild Landspítala starfar fagleg og samheldin liðsheild sem leggur sig fram við að veita framúrskarandi hjúkrun. Ég er stolt að tilheyra afkastamiklu teymi og saman munum við tryggja öryggi og velferð skjólstæðinga okkar sem og nýta tæknilausnir i þeirri vegferð.“