Nýja verklagið gefur möguleika á líffæragjöf eftir blóðrásardauða, þ.e. þegar blóðrás hefur stöðvast, að ströngum skilyrðum uppfylltum. Eingöngu verður um að ræða sjúklinga sem liggja inni á gjörgæsludeildum spítalans. Á hverju ári fara fram á bilinu 8-10 líffæragjafir á spítalanum en ætla má að nú bætist við u.þ.b. þrjár á ári.
Líffæragjöf eftir blóðrásardauða er viðkvæmt og flókið ferli sem þýðir að starfsfólk á skurðstofum, gjörgæsludeildum og svæfingu hefur knappari tíma til að koma gjafanum inn á skurðstofu og hefja aðgerð heldur en þegar um heiladauða er að ræða. Þetta krefst mikillar þjálfunar og samvinnu og af þessu tilefni fór nýlega fram hermiþjálfun á Landspítala, þar sem starfsfólk æfði m.a. að fara yfir gátlista og hvort allur útbúnaður væri til staðar auk þess að tryggja að hver og einn væri með sitt hlutverk á hreinu. Starfsfólkinu innan handar voru sérfræðingar í líffæragjöfum frá Sahlgrenska sjúkrahúsinu í Svíþjóð.
Í myndbandinu er rætt við Sigrúnu Ásgeirsdóttur, svæfinga- og gjörgæslulækni.
Nýtt ferli líffæragjafa innleitt
Til stendur að taka upp breytt verklag varðandi mögulegar líffæragjafir á Landspítala.