Landspítali hefur fallist á beiðni heilbrigðisráðherra um faglegan stuðning við áherslumál ráðherra á sviði stafrænnar þróunar innan heilbrigðiskerfisins. Svava María Atladóttir, framkvæmdastjóri þróunar, hefur því fengið tímabundið leyfi frá Landspítala til að sinna greiningarvinnu innan heilbrigðisráðuneytisins.
Markmið verkefnisins er að skapa heildstæða mynd af stöðu rafrænnar umbreytingar, meta hvernig núverandi lausnir nýtast og greina hvaða aðgerðir geta styrkt heilbrigðiskerfið til framtíðar með áherslu á umbætur í skilvirkni, nýtingu fjármuna og gæði heilbrigðisþjónustu á Íslandi.
Gunnar Ágúst Beinteinsson mun tímabundið sinna starfi framkvæmdastjóra þróunar samhliða starfi sínu sem framkvæmdastjóri rekstrar og mannauðs og staðgengill forstjóra.