Á myndinni eru Guðmundur Ingi Þóroddsson og Ingólfur Snær Víðisson frá Afstöðu - félags um bætt fangelsismál og betrun, Jónína Guðný Bogadóttir hjúkrunarfræðingur hjá Frú Ragnheiði og Kristín Davíðsdóttir hjúkrunarfræðingur á göngudeild smitsjúkdóma.
Þar sem um tilkynningarskyldan sjúkdóm er að ræða þarf lögum samkvæmt að fara í smitrakningu til að kanna hvort einhverjir úr nánasta umhverfi þess smitaða hafi smitast. Sökum aðstæðna þessara einstaklinga, sem báðir glíma við heimilisleysi, var ekki hægt að fara í hefðbundna smitrakningu þar sem stærstur hluti þeirra sem tilheyra þessum hópi er jafnan símalaus og heldur oft bara til tímabundið á hverjum stað fyrir sig. Lyfjameðferðin við þessum sjúkdómi er flókin og stendur yfir í langan tíma, þar sem meðferðarheldni er gríðarlega mikilvæg.
Brugðið var á það ráð að setja saman teymi aðila sem þekkja vel til hópsins úr öðrum störfum og af persónulegri reynslu. Þetta voru tveir meðlimir Afstöðu - félags um bætt fangelsismál og betrun, þeir Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður, og Ingólfur Snær Víðisson, Kristín Davíðsdóttir, hjúkrunarfræðingur á göngudeild smitsjúkdóma, og Jónína Guðný Bogadóttir, hjúkrunarfræðingur hjá Frú Ragnheiði. Eins var einn notandi skýlanna fenginn í hópinn til að sinna smitrakningu. Teymið er í nánu samstarfi við hjúkrunarfræðinga og lækna á göngudeild smitsjúkdóma.
Starf teymisins var í upphafi að starfa á vettvangi við það að fara með lyf daglega til smitaðs einstaklings sem gengið hafði erfiðlega að ná til. Sú vinna gekk vonum framar og í byrjun árs var aukið við hlutverk teymisins með því að fara í smitrakningu. Í þeirri vinnu hefur starfsfólk teymisins sett sig í samband við hin ýmsu úrræði og teymi sem eru starfandi og sinna einstaklingum þessa hóps, s.s. gistiskýli Reykjavíkurborgar, vettvangs- og ráðgjafarteymi borgarinnar, Fangelsismálastofnun, Kaffistofu Samhjálpar, meðferðarúrræði o.fl. til að hafa uppi á einstaklingum og fá þá í blóðprufur.
Meðlimir teymisins sjá fyrir sér að hægt verði að nýta það til ýmissa annarra verka er varða heilsutengd viðfangsefni og áskoranir hjá þeim jaðarsetta hópi samfélagsins sem heimilislausir eru.
Hægt er að hlusta á umfjöllun um vettvangsteymið í þættinum Þetta helst á Rás 1 hér.