Hraðhlaupið hafði það markmið að þróa nýjar, skapandi lausnir fyrir heilsutækni. Áskoranir voru settar fram af Landspítala, heilbrigðisráðuneytinu, Stafrænu Íslandi og sjálfstæðum frumkvöðlum. Þátttakendur voru m.a. frá Landspítala, heilsugæslunni og úr nýsköpunarnáminu. Sex teymi, undir handleiðslu leiðbeinanda, unnu að lausnum sem miðuðu að umbótum í heilbrigðiskerfinu með einfaldari ferlum og skilvirkara upplýsingaflæði. Teymin notuðu tækni eins og gervigreind til að bæta heilbrigðiskerfið og kynntu fjölbreyttar lausnir í lok hraðhlaupsins.
„Það var frábært að sjá fjölbreyttan hóp sérfræðinga úr heilbrigðiskerfinu koma saman. Þetta tækifæri til samstarfs og nýsköpunar var einstakt,“ sagði einn af skipuleggjendunum. „Þróun lausnanna heldur áfram og við hlökkum til að sjá áhrif þeirra á heilbrigðisþjónustu.“
„Mín Heilsa“ frá Landspítala
Landspítali setti fram áskorun um að bæta upplýsingagjöf til sjúklinga, með því að safna saman niðurstöðum rannsókna, tímabókunum, fræðsluefni og fleiru á einum stað. Lausnin varð til í formi heimasíðunnar „Mín Heilsa“, sem hópurinn vonar að verði þróuð áfram. Þessi útfærsla á vonandi eftir að auka hagkvæmni, þátttöku og ábyrgð sjúklinga.
Hópurinn sem vann að tillögunni ,,Mín heilsa”. Á myndina vantar Erlu frá Landspítala.
Hópurinn VIA Health lenti í fyrsta sæti í Hugmyndahraðhlaupinu. Hópurinn vann með eftirfarandi áskorun frá Heilbrigðisráðuneytinu: „Heilbrigðisráðuneytið leitar að nýstárlegum leiðum til að safna saman og samræma upplýsingar um biðlista barna í heilbrigðiskerfinu.“ Hópurinn ákvað að taka áskorunina skrefi lengra og horfa til framtíðar um hvernig nýta megi tækni til að leysa fleiri áskoranir innan heilbrigðiskerfisins. Sérstök áhersla var lögð á sjónarhorn foreldra og barna, með það að markmiði að draga úr óvissu, bæta aðgengi að gagnlegum upplýsingum og auka gagnsæi í ferlum.
Vinningshafar í hópnum VIA ásamt dómnefnd.
Skýrari sýn á stöðu biðlista
Mikill kostnaður fellur til vegna biðlistaumsýslu innan heilbrigðiskerfisins. Lausnin sem hópurinn kynnti lofar ekki einungis bættu aðgengi að þjónustu og upplýsingum, heldur einnig tækifæri til að nýta gögn til upplýstrar ákvarðanatöku, stefnumótunar og markvissari úthlutunar fjármuna. Verkefnið endurspeglar skýrar vonir og væntingar bæði notenda og stjórnenda kerfisins um skilvirkara og betra heilbrigðiskerfi fyrir börn og fjölskyldur þeirra. Hópurinn vonast nú til að þróa hugmyndina enn frekar til að öðlast skýrari sýn á stöðu biðlista barna með fjölþættar þarfir á Íslandi – bæði fyrir fjölskyldur, meðferðaraðila og stjórnvöld. Lokaútkoman var sýnd á seinni deginum en þar fékk sigurliðið 200.000 kr.
„Þátttaka í hugmyndahraðhlaupinu var mjög skemmtileg og upplýsandi reynsla. Bæði lærðum við aðferðir til að leysa flóknar áskoranir á skömmum tíma og einnig að setja hugmyndir fram á skýran og aðgengilegan hátt til að koma þeim á framfæri. Við vonum að þessi reynsla nýtist okkur innan spítalans til að vinna verkefni á skilvirkan og árangursmiðaðan hátt,“ segja forstöðuhjúkrunarfræðingarnir Bylgja, Erla Dögg og Júlíana Guðrún, sem tóku þátt í hugmyndahraðhlaupinu.