Guðrún mun sinna verkefnum er snúa að neyðarstjórnun, viðbúnaði og viðbrögðum Landspítala við vá. Í því felst m.a. endurskoðun og umsjá með viðbragðsáætlun Landspítala, efling viðbragðsstjórnar Landspítala, þjálfun og æfingar og samstarf innan almannavarnakerfisins.
Guðrún útskrifaðist úr hjúkrunarfræði frá HÍ árið 2006 og útskrifaðist frá Kingston University í London með MSc í hættu- og hamfarastjórnun árið 2012. Hún starfaði lengst af á bráðamóttöku Landspítalans en hefur undanfarin 5 ár starfað hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra sem fagstjóri heilbrigðismála.
„Landspítali hefur ekki farið varhluta af stórum áföllum sem dunið hafa á þjóðinni á undanförnum árum. Viðbrögðum við þessum áskorunum fylgja einnig tækifæri, ekki síst í formi reynslu og þekkingar og aukinni vitund á mikilvægi neyðarstjórnunar. Í takti við það og ekki síst í samhengi við þróun heimsmála er nauðsynlegt að Landspítali leggi í auknum mæli áherslu á áfallaþol, eflingu viðbúnaðar og hæfni starfsfólks til að sinna sínum störfum þegar mest á reynir. Ég sé fjölmörg sóknarfæri þegar kemur að eflingu viðbúnaðar á Landspítala og hlakka til að takast á við komandi verkefni.“