Margrét Jóna lauk kandídatsprófi í læknisfræði frá læknadeild Háskóla Íslands 2010, meistarapróf í líf- og læknavísindum frá Háskóla Íslands 2015 og doktorsprófi í læknavísindum frá Háskólanum í Gautaborg 2023.
Hún hlaut almennt lækningaleyfi 2011, sérfræðileyfi í lyflækningum 2017 og sérfræðileyfi í innkirtlalækningum 2021.
Margrét Jóna starfaði sem sérnámslæknir á lyflækningasviði Landspítala 2011-2015 og sérnámslæknir á lyflækningadeild á Sahlgrenska sjúkrahúsinu í Gautaborg 2015 -2017. Hún starfaði sem sérfræðilæknir í lyflækningum og sérnámslæknir í innkirtlalækningum á Sahlgrenska í Gautaborg 2017– 2021 og sérfræðilæknir í lyf- og innkirtlalækningum, á sama sjúkrahúsi 2021– 2024.
Margrét Jóna hóf störf sem sérfæðilæknir í innkirtlalækningum á Landspítala í ágúst 2024 og hefur síðustu fjóra mánuði gengt stöðu yfirlæknis í afleysingum.
„Ég hlakka til að takast á við þau spennandi verkefni sem fram undan eru. Mikilvægt er að hlúa að því öfluga og hæfa starfsfólki sem starfar á göngudeild innkirtla og efnaskipta. Ég vil efla styðjandi og jákvætt vinnuumhverfi sem stuðlar að góðri samvinnu og faglegri framþróun. Þá vil ég einnig styrkja vísindastarf innan deildarinnar, svo unnt sé að mæla þann árangur sem náðst hefur á undanförnum árum og nota þær upplýsingar til að bæta þjónustu göngudeildarinnar enn frekar.“