Ríkarður Sigfússon, sérfræðingur í bæklunarskurðlækningum, fékk heiðrun í flokknum Framþróun á ársfundi Landspítala í maí síðastliðnum.
Ríkarður hefur starfað á Landspítala í meira en þrjá áratugi og hefur á þeim tíma verið leiðandi afl í þróun gerviliðaaðgerða hér á landi og mótað bæklunarskurðdeild Landspítala með þekkingu sinni og fagmennsku.
Bæklunarskurðlækningar hafa þróast mikið á síðustu áratugum. Með betri verkfærum og íhlutum hefur átt sér stað stórfelld framþróun í greininni sem hefur gjörbreytt lífsgæðum sjúklinga og veitt þeim aukið sjálfstæði.
Úr tilnefningu: „Ríkarður hefur lyft grettistaki í gerviliðsskurðlækningum á Landspítala. Verið virkur í kennslu deildar- og sérnámslækna. Einstaklega þægilegt að leita ráða frá honum og maður kemur aldrei að tómum kofanum.“
Heiðrað er í flokkum sem samsvara gildum spítalans: Umhyggja, fagmennska, öryggi og framþróun. Að auki er heiðrað í flokknum Vinnustaðurinn okkar þar sem heiðraðir eru traustir vinnufélagar sem gera vinnudaginn betri.
Fjölmargar tilnefningar bárust en það er ekki aðeins samstarfsfólk sem getur tilnefnt heldur einnig sjúklingar, aðstandendur og sjúklingasamtök.
Þeir einstaklingar sem voru heiðraðir í ár fengu verkið Á eftir listakonuna Ástu Fanneyju Sigurðardóttur.
Ásta Fanney er talin einn af fremstu gjörningalistamönnum landsins. Hún hefur sýnt og flutt verk sín á söfnum og hátíðum víða um heim og verður fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum í myndlist árið 2026 en tvíæringurinn er talinn einn mikilvægasti vettvangur samtímalistar á heimsvísu.
Verkið Á er prentverk í ótakmörkuðu upplagi en hvert verk er þó einstakt þar sem Ásta stimplar árfarveginn á hvert verk fyrir sig. Þar sem áin endar á hverju blaði tekur hún við á því næsta og þannig flæðir hún áfram í gegnum verkin. Verkið á rætur sínar í gjörningi sem Ásta sýndi á samtímalistasafninu í Tókýó árið 2023.