Mynd: Gunnar Svavarsson, framkvæmdastjóri NLSH, Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri, Alma D. Möller heilbrigðisráðherra og Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala.
Gert er ráð fyrir að byggingin verði á einni til tveimur hæðum með opnum inngörðum. Þetta fyrirkomulag er sniðið að batamiðaðri hönnun sérhæfðs geðsjúkrahúss þar sem áhersla er lögð á fremstu gæði varðandi aðbúnað og upplifun fólks, jafnt starfsmanna, sjúklinga og gesta þeirra. Gangi allt eftir er áætlaður verktími við hönnun og framkvæmdir um fimm ár.
Stórt skref í átt að batamiðaðri nálgun
Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala, segir að um sé að ræða mikilvægan áfanga, ekki aðeins fyrir Landspítala heldur samfélagið allt. „Staðsetning framtíðarhúsnæðis fyrir geðþjónustu Landspítala er gríðarlega mikilvægur áfangi. Núverandi húsnæði geðþjónustunnar uppfyllir ekki þau viðmið sem nútímageðþjónusta setur um aðbúnað við einstaklinga sem stríða við þungbæra geðsjúkdóma. Með þessu er tekið stórt skref í átt að því að tryggja batamiðaða nálgun í þjónustu við fólk með geðraskanir í nútímalegu og manneskjulegu umhverfi. Þetta er mikilvægur áfangi fyrir Landspítala og samfélagið allt.“