Á myndinni eru Alma Möller heilbrigðisráðherra og Björn Rúnar Lúðvíksson, framkvæmdastjóri klínískrar rannsókna- og stoðþjónustu Landspítala.
Blóðbankinn hefur síðustu 18 ár verið staðsettur á Snorrabraut en framkvæmdir þar og skortur á bílastæðum voru tekin að aftra móttöku blóðgjafa. Ný aðstaða Blóðbankans er á 5. hæð norðurturns Kringlunnar og eru lyftur, sem ganga upp norðurturninn, staðsettar á milli verslananna Lindex og Júník.
Heilbrigðisráðherra óskaði öllum viðstöddum til hamingju með áfangann og sagði það afar gleðilegt að Blóðbankinn væri kominn í Kringluna. Það yrði vonandi til þess að fjölga nýjum blóðgjöfum en sú var raunin þegar blóðbankinn á Akureyri var fluttur úr húsnæði spítalans yfir á Glerártorg. Alma sagði Blóðbankann gegna mikilvægu hlutverki í heilbrigðiskerfinu. „Ég vann áður sem svæfinga- og gjörgæslulæknir og hef hengt upp ófáa blóðpoka og veit svo sannarlega hvaða þýðingu þetta hefur,” sagði hún.
Bjartsýnn að hægt verði að fjölga nýskráðum blóðgjöfum
Björn Rúnar Lúðvíksson, framkvæmdastjóri klínískrar rannsókna- og stoðþjónustu Landspítala: „Nú hefur mikilvægum áfanga verið náð þar sem einn af hornsteinum íslenskrar heilbrigðisþjónustu sem eru blóðgjafarnir okkar fá bætt aðgengi og aðstöðu til blóðgjafa. Þar hefur okkur tekist að færa þessa kjarnastarfsemi að einum best þekkta og fjölsóttasta stað höfuðborgarsvæðisins. Erum við því full bjartsýni að með þessu móti muni okkur takast að fjölga nýskráðum blóðgjöfum og með því þann frábæra kjarnahóp blóðgjafa sem gefa líf með reglulegum hætti.“
Til að mæta lágmarksþörfum þarf Blóðbankinn 16.000 blóðgjafir á ári eða um 70 blóðgjafir á dag, allan ársins hring. Þörf er á 2.000 nýjum blóðgjöfum á ári í stað þeirra sem hætta að gefa sökum aldurs eða annarra orsaka.
Hægt er að panta tíma í blóðgjöf og nálgast fræðsluefni um Blóðbankann á heimasíðu Blóðbankans.