Sex læknar og tólf hjúkrunarfræðingar frá Landspítala - háskólasjúkrahúsi fara með flugvél sem íslensk stjórnvöld senda til Bankok í Taílandi 2. janúar 2005 til þess að sækja þangað sænska ferðamenn sem slösuðust í náttúruhamförunum í Suðaustur-Asíu annan dag jóla og aðstandendur þeirra. Hópurinn fer á vegum og á ábyrgð Landspítala - háskólasjúkrahúss. Leiðangursstjóri LSH er Friðrik Sigurbergsson læknir og Guðbjörg Pálsdóttir hjúkrunarfræðingur skipuleggur störf hjúkrunarfræðinganna.
Áætlað er að sjúklingar verði 18 á sjúkrabörum og 40 - 50 aðstandendur og minna slasaðir verði einnig í flugvélinni til Stokkhólms en þangað er áætlað að koma síðdegis þriðjudaginn 4. janúar. Sjúklingarnir eru margir alvarlega slasaðir og aðrir með beinbrot, sýkingar, sár og drep. Einnig er eitthvað um hryggjarskaða og iðrasýkingar. Andlegt ástand slasaðra og aðstandenda er mjög slæmt og er sérstök áhersla lögð á að sinna þeim þætti vel.
Í förinni eru fulltrúi forsætisráðuneytisins, Steingrímur Ólafsson, sem jafnframt verður leiðangursstjóri. Einn fulltrúi almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra er með í för, tveir fulltrúar frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og þrír frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu.
Allir læknarnir og hjúkrunarfræðingarnir eru sérstaklega þjálfaðir í að sinna slösuðum og bráðveikum og hafa reynslu af því að annast einstaklinga sem hafa orðið fyrir andlegum áföllum. Þeir sem fara frá Landsbjörgu og Slökkviliðinu eru einnig sérþjálfaðir í umönnun mikið slasaðra.
Undirbúningur ferðinnar gekk með miklum ágætum og voru viðbrögð þeirra fjölmörgu sem að honum kom einstaklega góð.
Á upplýsingavefnum verða reglulega birtar upplýsingar um gang ferðarinnar.
Upplýsingar til ættingja og aðstandenda þeirra sem í ferðinni eru veita Anna Stefánsdóttir hjúkrunarforstjóri og Vilhelmína Haraldsdóttir lækningaforstjóri í gegnum skiptiborð Landspítala, s. 543 1000.