Dr. Helgi Sigurðsson hefur verið ráðinn prófessor krabbameinslækninga við læknadeild Háskóla Íslands og yfirlæknir við Landspítala - háskólasjúkrahús. Helgi er fæddur 1952 og lauk læknanámi árið 1979. Hann varð sérfræðingur í krabbameinslækningum árið 1986 og lauk doktorsprófi í læknisfræði á sviði krabbameinslækninga árið 1992 frá læknadeild Háskólans í Lundi, Svíþjóð. Hann hefur starfað sem sérfræðingur í krabbameinslækningum við Landspítalann síðan árið 1989, sem yfirlæknir frá því árið 1997 fyrst við krabbameinslækningadeild Landspítala og síðar Krabbameinsmiðstöð Landspítala - háskólasjúkrahúss (LSH) og sem dósent í krabbameinslækningum við læknadeild Háskóla Íslands (HÍ) síðan árið 1996. Rannsóknir Helga hafa verið á mörgum sviðum krabbameinslækninga, faraldsfræði krabbameina, mat á horfum sjúklinga með krabbamein og árangur lyfjameðferðar. Helgi er höfundur eða meðhöfundur fjölda vísindagreina og það eru rúmlega 1.900 tilvitnanir í þær greinar (Web of Science, 2006). Krabbameinssjúklingum fjölgar árlega um 4% hér á landi. Meðhöndlun sjúklinga með krabbamein er ört vaxandi þáttur í starfsemi LSH og sem dæmi um má nefna að á síðasta ári hófu störf á LSH þrír nýir sérfræðingar í krabbameinslækningum. Enn fremur er prófessorsstaðan í krabbameinslækningum merki um aukna áherslu á vægi krabbameinslækninga innan LSH og staðan er einnig sú fyrsta á því sviði. Hún byggir á samkomulagi milli HÍ og LSH. Frumkvæðið að styrkingu krabbameinslækninga sem fræðigreinar innan læknadeildar kemur frá framkvæmdastjórn LSH og er grundað á samkomulagi þar um í stefnunefnd HÍ og LSH. (Fréttatilkynning - í heild) |
Helgi Sigurðsson ráðinn prófessor krabbameinslækninga og yfirlæknir
Helgi Sigurðsson hefur verið ráðinn prófessor krabbameinslækninga og yfirlæknir á LSH. Ný prófessorsstaða í krabbameinslækningum er merki um aukna áherslu á þær innan LSH.