Könnun á vegum gæðadeildar, 5. desember 2001, leiddi ljós að aðeins tæpur helmingur sjúklinga á spítalanum var þá merktur með armbandi. Könnunin var gerð í kjölfar atviks síðastliðið haust en þá lá nærri að ómerktur sjúklingur fengi meðferð sem ætluð var öðrum.
Könnunin var gerð á 22 deildum og sáu sviðsstjórar hjúkrunar um að safna gögnum með því að fara á þessar deildir og tala við fyrirfram ákveðinn fjölda sjúklinga.
Daginn sem könnunin var gerð lágu samtals 378 sjúklingar á viðkomandi deildum og voru 55% þeirra skoðuð með tilliti til merkinga eða 208 sjúklingar. Niðurstaðan leiddi í ljós að 91 sjúklingur var merktur eða 44 % þeirra sem skoðaðir voru en 117 voru ómerktir eða 56%. Af þeim sjúklingum sem voru merktir höfðu 84 fengið armbandið strax við komu eða 92%.
Framkvæmdastjórn hefur fjallað um niðurstöður þessarar könnunar og telur brýnt að framkvæmdastjóri hjúkrunar og framkvæmdastjóri lækninga skrái reglur sjúkrahússins hvað þetta varðar. Á vegum framkvæmdastjóra hjúkrunar er verið að skoða hvort hægt er að taka í notkun betri armbönd en þau sem nú eru notuð.