Stofnfundur Félags um lýðheilsu verður haldinn mánudaginn 3. desember 2001, kl. 17 í fundarsal (1. hæð) Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur.
Dagskrá:
Jón Kristjánsson heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra flytur ávarp
Sigurður Guðmundsson landlæknir fjallar um lýðheilsu á Íslandi
Stofnun Félags um lýðheilsu
Kynning á drögum að lögum félagsins
Kosning í stjórn félagsins
Önnur mál
Undanfarna mánuði hefur hópur fólks unnið að því að undirbúa stofnun félags um lýðheilsu. Hugmyndin að slíkum félagsskap kviknaði á námskeiði um lýðheilsu í apríl síðast liðnum. Á fundi sem haldinn var í maí komu fulltrúar margra faghópa, félaga og stofnana og lýstu fundarmenn sig reiðubúna til að vinna að stofnun slíks félags. Fundarmenn litu á félagið sem tækifæri til að stilla saman strengi og vinna að nýjum verkefnum á sviði forvarna og heilsueflingar. Félaginu er ætlað að verða nokkurs konar regnhlífarsamtök áhugafólks um lýðheilsu. Sambærileg félög eru starfandi í nágrannalöndum okkar og einnig eru til alþjóðasamtök sem leitað verður eftir samstarfi við.
Lýðheilsa varðar félagslega og heilsufarslega þætti þjóða og hópa. Lýðheilsa miðar að því að bæta heilbrigði, lengja líf og bæta lífsgæði þjóða og hópa með almennri heilsuvernd, heilsueflingu, sjúkdómavörnum og annarri heilbrigðisþjónustu.
Félag um lýðheilsu yrði félag fagmanna og áhugafólks um lýðheilsu á Íslandi. Tilgangur félagsins er að:
- Hvetja til þess að heilbrigðissjónarmiða sem eru byggð á bestu þekkingu á hverjum tíma sé gætt við stefnumótun og aðgerðir stjórnvalda.
- Vekja athygli almennings á möguleikum til að hafa áhrif á eigið heilbrigði og leiðir til heilsueflingar.
- Hvetja til samstarfs þeirra sem starfa á vettvangi lýðheilsu og þeirra sem geta haft áhrif á heilsufar og velferð landsmanna, s.s. sveitarfélaga, skóla og stofnana.
- Vinna að bættu heilsufari þjóðarinnar með því að standa vörð um gæði þjónustu á sviði lýðheilsu og jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu.
- Stuðla að þróun og rannsóknum á sviði lýðheilsu og beitingu viðurkenndra aðferða við mat á árangri verkefna.
- Eiga samskipti við félagasamtök um lýðheilsu á erlendum vettvangi.