Líðan og árangur skjólstæðinga
metin í hjúkrunarrannsókn
Elísabet Guðmundsdóttir hjúkrunarfræðingur á þróunarskrifstofu hjúkrunarforstjóra LSH vinnur að rannsókn á mati hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra á líðan og árangri skjólstæðinga sinna. Rannsóknin er verkefni hennar til meistaraprófs við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands. Í rannsókninni er meðal annars leitast við að greina hvað hjúkrunarfræðingar og ljósmæður eru að meta hjá eða með skjólstæðingum sínum varðandi heilsufar þeirra. Rannsókn Elísabetar nefnist Rannsókn á notagildi matsþátta til árangursmælinga í hjúkrun.
Í úrtaki vegna rannsóknarinnar eru allir klínískir hjúkrunarfræðingar og ljósmæður, á deildum þar sem fleiri en 5 hjúkrunarfræðingar eða ljósmæður starfa, en stjórnendur eru ekki með í úrtakinu í þetta sinn. Kallað er eftir svörum fyrir 10. desember 2001.
Mælitækið, sem er í formi spurningalista hefur nú verið sent til yfir 900 hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra á Landspítala - háskólasjúkrahúsi (LSH), en forprófanir fóru fram á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri og áreiðanleikaprófun var gerð á Sjúkrahúsi og heilsugæslustöð Akraness.
Aðalleiðbeinandi Elísabetar er Connie Delaney Ph.D. prófessor við HÍ og University of IOWA, en auk hennar komu Ásta Thoroddsen M.S. lektor við HÍ og Þorlákur Karlsson Ph.D. tölfræðingur að undirbúningi rannsóknarinnar, sem er framkvæmd í samvinnu við hjúkrunarstjórn LSH. Rannsóknarnámssjóður Rannís styrkir þessa rannsókn og hefur rannsóknarnefnd hjúkrunarráðs LSH veitt leyfi fyrir henni. Niðurstöður verða væntanlega kynntar vorið 2002.