Framkvæmdastjórn samþykkti eftirfarandi á fundi sínum 26. febrúar 2002:
Lagt er til að komið verði á fót starfsheiti aðstoðaryfirlækna við Landspítala - háskólasjúkrahús.
Aðstoðaryfirlæknir er faglegur stjórnandi skilgreinds hluta sérgreinar í umboði yfirlæknis viðkomandi sérgreinar. Hann skipuleggur og stýrir daglegum störfum í umboði yfirlæknisins, setur starfseminni fagleg markmið og stefnu, skipuleggur störf annarra starfsmanna, sem að hinni skilgreindu starfsemi koma á hverjum tíma og hefur umsjón með öðrum aðföngum sem starfsemin krefst og falla undir ábyrgð lækna. Hann gerir yfirlækni sérgreinarinnar reglulega grein fyrir starfseminni, enda er fjárhagsleg ábyrgð á rekstrinum svo og mannaforráð eftir sem áður á hendi viðkomandi yfirlæknis.
Störf aðstoðaryfirlæknis skulu vera skýrt afmörkuð og skilgreind af viðkomandi yfirlækni og skal sú starfsemi sem um ræðir hafa faglega sérstöðu og umtalsvert vægi innan sérgreinarinnar. Verður ekki til slíks starfsheitis stofnað nema með samþykki sviðsstjóra þess sviðs sem sérgreinin tilheyrir og með samþykki lækningaforstjóra. Læknar sem undir verkstjórn viðkomandi aðstoðaryfirlæknis starfa skulu ekki vera færri en tveir.
Aðstoðaryfirlæknir er valinn af yfirlækni úr hópi sérfræðinga viðkomandi sérgreinar. Láti aðstoðaryfirlæknir af hinu tilgreinda starfi fellur starfsheiti hans niður sjálfkrafa þar með. Aðstoðaryfirlæknum skal sett starfslýsing þar sem tilgreint er hvaða stjórnunarlegum störfum þeir gegna í umboði yfirlæknis.