Rafræn læknabréf milli Heilsugæslunnar í Reykjavík og Landspítala - háskólasjúkrahúss
Landspítali - háskólasjúkrahús og Heilsugæslan í Reykjavík hafa undanfarið undirbúið rafræn samskipti milli starfsstöðva sinna í samvinnu við heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið og Theriak ehf. Þetta er þróunarverkefni innan ramma heilbrigðisnetsins um rafrænar sendingar sjúkraskrárgagna milli stofnana. Stofnanirnar nota sjúkraskrárkerfið SÖGU sem grundvöll rafrænnar sjúkraskrár. Því er auðvelt að skiptast á skilgreindum gögnum um sjúklinga sem leita þjónustu hjá báðum. Ákveðið var að byrja á því að senda rafræn læknabréf frá LSH til HR vegna þeirra tugþúsunda sjúklinga Heilsugæslunnar sem ár hvert leita þjónustu á LSH. Meirihluta þessara samskipta er lokið með gerð læknabréfs með helstu upplýsingum um hvað gert var. Í læknabréfi eru tilgreindar ástæður komu, sjúkdómsgreiningar, aðgerðir, rannsóknir, lyfjameðferð, áætlað eftirlit og ráðleggingar til sjúklings og heimilislæknis. Árlega eru send a.m.k. 100 þúsund læknabréf frá LSH og má ætla að um 80% þeirra fari til Heilsugæslunnar.
Núverandi vinnuferli við sendingu og móttöku læknabréfa:
· Læknabréf er ritað í SÖGU
· Ritarar á LSH prenta bréfið út, setja það í umslag, merkja og senda til HR
· Ritarar á HR opna umslag og flokka bréf til viðkomandi læknis
· Læknir á HR les bréfið og merkir við mikilvægustu atriðin
· Ritarar setja bréf í pappírssjúkraskrá og/eða slá inn í SÖGU atriði samkvæmt beiðni læknis.
Þessu flókna ferli fylgir veruleg hætta á að mikilvæg gögn misfarist og að þau séu ekki eins aðgengileg læknum Heilsugæslunnar og ástæða er til.
Með tilkomu rafrænna læknabréfa breytist vinnuferlið þannig að bréfið er sent sem rafrænt skjal til Heilsugæslunnar, ritarar þar flokka skjölin til réttra viðtakanda og skjölin birtast læknum í SÖGU til lestrar og hægt er að vista þau þar. Þannig sparast umtalsverð vinna á LSH og HR, auk pappírs- og sendingarkostnaðar. Gögnin verða líka öruggari og nýting á þeim batnar vegna þess að þau geta orðið hluti af rafrænni sjúkraskrá á HR þótt þau eigi sér uppruna á LSH. Þetta er því mikilvægt skref í átt að heilbrigðisneti þar sem fleiri stofnanir gætu tengst þessum tveimur stofnunum með sama hætti síðar.
Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri varð fyrst íslenskra heilbrigðisstofnana til að taka upp rafrænar sendingar læknabréfa í samvinnu við Heilsugæsluna á Akureyri og Theriak ehf. Reynsla þar hefur verið góð. Rafrænar sendingar læknabréfa hafa sparað tíma og aukið gæði þjónustunnar með því að greiða fyrir nauðsynlegu flæði upplýsinga. Heilsugæslan í Reykjavík og Landspítali - háskólasjúkrahús stíga nú svipað skref með rafrænum sendingum læknabréfa en í kjölfarið munu stofnanirnar hafa frekari samvinnu sín á milli varðandi rafræna miðlun annarra gagna, svo sem hjúkrunarbréfa, innlagnarbeiðna og sérfræðiálita.
Rafræn læknabréf eru liður í uppbyggingu rafrænnar sjúkraskrár á Íslandi. Undanfarna mánuði hefur farið fram undirbúningsvinna á vegum heilbrigðisráðuneytisins þar sem drög hafa verið lögð að uppbyggingu rafrænnar sjúkraskrár á landsvísu. Það er ætlun ráðuneytisins að vinna markvisst að þessu mikilvæga verkefni á næstu misserum til hagsbóta fyrir skjólstæðinga heilbrigðiskerfisins.
Undanfarin misseri hefur tilraunaverkefni um rafræna lyfseðla verið í gangi á Norð-Austurlandi. Verkefnið hefur þótt takast vel og eru þeir sem að verkefninu hafa komið ánægðir með framgang þess. Á árinu 2005 er ætlunin að hefjast handa við innleiðingu rafrænna lyfseðla á landsvísu. Í byrjun verða það læknar á heilsugæslustöðvum og sjúkrahúsum sem geta sent lyfseðla rafrænt til apóteka. Þetta fyrirkomulag skapar hagræði á öllum stigum, allt frá útgáfu lyfseðils til afgreiðslu hans, en umfram allt eykur þetta öryggi samskiptanna.