Ákveðnar hafa verið aðgerðir til að stytta bið eftir liðskiptaaðgerðum á Landspítala í samstarfi við Sjúkrahúsið og heilsugæslustöðina á Akranesi, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Þær fela m.a. í sér að sjúklingum verður boðið að fara fljótt eftir aðgerð á Landspítala á þessi þrjú sjúkrahús og ljúka legunni þar.
Þann 19. september s.l. voru 312 sjúklingar á biðlista LSH eftir liðskiptaaðgerðum á hné og mjöðm og 123 sjúklingar á biðlista Sjúkrahúss og heilsugæslunnar á Akranesi. Alls biðu 270 eftir aðgerð á hné og 167 eftir aðgerð á mjöðm. Hægt er að gera 15 liðskiptaaðgerðir á viku á skurðstofu LSH en legurými hefur takmarkað aðgerðafjöldann. Á Akranesi eru að jafnaði gerðar 2 aðgerðir á viku en geta farið í 4.
Á LSH munu 2 legudeildir hlaupa undir bagga með bæklunardeildunum tveimur og annast sjúklinga í liðskiptaaðgerð. Endurhæfingardeild á Grensási mun jafnframt taka á móti 4 sjúklingum á viku fljótt eftir aðgerð.
Vonast er til að með þessum aðgerðum styttist bið eftir liðskiptaaðgerðum þannig að í vor verði einungis um eðlilegan vinnulista að ræða.
Skylt efni:Starfsemisupplýsingar LSH janúar til ágúst 2007