Jóhann Elí Guðjónsson, er fæddur 1972. Foreldrar hans eru Guðjón Elí Jóhannsson og Auður Hermundsdóttir. Hann útskrifaðist úr Menntaskólanum í Reykjavík 1992 með ágætiseinkunn og stundaði nám í læknisfræði við læknadeild Háskóla Íslands 1992 til 1998. Eftir kandídatsár við Landspítala - háskólasjúkrahús 1999 innritaðist hann í doktorsnám við læknadeild Háskóla Íslands með aðstöðu við ónæmisfræðideild Landspítalans undir handleiðslu Helga Valdimarssonar prófessors. Frá júní 2003 hefur Jóhann stundað framhaldsnám í húðlækningum við University of Michigan. Jóhann var varaformaður Félags ungra lækna 2001-2002 og formaður 2002-2003. Eiginkona Jóhanns er Jódís Bjarnadóttir félagsfræðingur og eiga þau tvo syni, Bjarna Elí og Hlyn.
Jóhann Elí fékk verðlaun menntamálaráðherra til ungs og efnilegs vísindamanns á XI. vísindaráðstefnu lækna-, tannlækna- og lyfjafræðideilda Háskóla Íslands árið 2002. Verðlaunin fékk hann fyrir psoriasis rannsóknir sínar, sjá nánar í ársskýrslu LSH 2002, bls. 51. Ársskýrslan er birt sem pdf skjal á upplýsingavef sjúkrahússins.
Ver doktorsritgerð sína um psoriasis
Jóhann Elí Guðjónsson ver doktorsriterð sína, Psoriasis. Erfðir, klínísk einkenni og meingerð, við læknadeild Háskóla Íslands, í sal 101 í Lögbergi, laugardaginn 29. nóvember 2003, kl.13:30.
Jóhann Elí Guðjónsson læknir ver doktorsritgerð sína, "Psoriasis: Erfðir, klínísk einkenni og meingerð", við læknadeild Háskóla Íslands laugardaginn 29. nóvember 2003. Andmælendur eru dr. Vilmundur Guðnason forstöðulæknir Rannsóknastöðvar Hjartaverndar og prófessor Lionel Fry, Imperial College, London. Dr. Stefán B. Sigurðsson forseti læknadeildar stjórnar athöfninni sem fer fram í sal 101 í Lögbergi og hefst klukkan 13:30.
Doktorsritgerðin er að miklu leyti byggð á niðurstöðum rannsóknarsamvinnu sem hefur verið á milli Íslenskrar erfðagreininar og Helga Valdimarssonar prófessors, á erfðum psoriasis.
Psoriasis er krónískur bólgusjúkdómur í húð en hluti psoriasis sjúklinga fær einnig bólgusjúkdóm í liði. Orsakir sjúkdómsins eru enn að mestu óþekktar en ljóst er að um samspil erfða- og umhverfisþátta sé að ræða. Ritgerðin byggist á 6 greinum sem fjalla um genaleit í sjúkdómnum, klínísk einkenni sjúkdómsins í tengslum við erfðamörk og umhverfisþætti í psoriasis. Niðurstöður sem fjallað er um í ritgerðinni sýna að psoriasis er flóknari sjúkdómur en áður hefur verið talið og að erfðaþættir hans hafa töluverð áhrif á birtingu sjúkdómsins og mismunandi tengsl við þekkta umhverfisþætti, eins og streptókokkasýkingar í hálsi. Í framsýnni rannsókn er sýnt fram á mikilvægi streptókokkasýkinga í versnun á psoriasis og sýnt er fram á að ákveðin klínísk einkenni sjúkdómsins virðast hafa mismunandi erfðaþætti. Þannig var t.d. staðsettur sérstakur erfðaþáttur sem virðist ráða uppkomu psoriasis liðagigtar. Á sama hátt voru staðsettir aðrir erfðaþættir fyrir önnur mismunandi birtingarform sjúkdómsins.
Í doktorsnefnd sátu dr. Bárður Sigurgeirsson húðlæknir, dr. Björn Rúnar Lúðvíksson læknir, dósent, sérfræðingur í ónæmisfræði, prófessor Helgi Valdimarsson yfirlæknir og forstöðumaður fræðasviðs, dr. Jeffrey R Gulcher læknir, framkvæmdastjóri rannsókna- og þróunarsviðs Íslenskrar erfðagreiningar og dr. Augustine Kong, framkvæmdastjóri tölfræðisviðs Íslenskrar erfðagreiningar.