Ólafur Steingrímsson hefur verið valinn til að gegna starfi sviðsstjóra á rannsóknarsviði Landspítala - háskólasjúkrahúss. Hann hefur verið sviðsstjóri Rannsóknarstofnunar LSH. Jafnframt hefur verið skipaður starfshópur til að vinna rekstrarúttekt á þessu sameinaða rannsóknarsviði. Í honum eru Guðmundur I. Bergþórsson sviðsstjóri innkaupa- og vörustjórnunarsviðs, skrifstofu fjárreiðna og upplýsinga (SFU), María Heimisdóttir læknir, SFU, Niels Chr. Nielsen læknir, aðstoðarmaður framkvæmdastjóra lækninga og Sólveig Hrönn Sigurðardóttir tölvunarfræðingur, upplýsingatæknisviði (UTS). |
Skipun í starfshóp til að vinna rekstrarúttekt á sameinuðu rannsóknarsviði.
Framkvæmdastjórn Landspítala - háskólasjúkrahúss hefur ákveðið, í framhaldi af skýrslu starfshóps, að sameina Rannsóknarstofnun LSH, Blóðbankann og Rannsóknarstofu í meinafræði í eitt svið. Hið nýja skipulag mun taka gildi þann 1. febrúar 2005. Til þess að auðvelda samþættingu starfsins á hinu nýja sviði og ná þeim rekstrarlegu markmiðum sem stefnt er að svo fljótt sem verða má, hefur framkvæmdastjórn ákveðið að skipa starfshóp til að vinna að rekstrarúttekt á hinu nýja rannsóknarsviði. Jafnframt er starfshópnum falið, í samvinnu við sviðsstjóra, að hrinda í framkvæmd þeim breytingum sem hópurinn telur að gera þurfi. Hópurinn skal vinna í samstarfi við sviðsstjóra og yfirlækna hins nýja sviðs. Í vinnu hópsins verður farið yfir alla helstu rekstrarþætti sem talið er að megi bæta með sameiningunni. Starfshópnum er ætlað að skila framkvæmdastjórn áfangaskýrslu 1. apríl n.k. og skýrslu um framgang mála annan hvorn mánuð. Gert er ráð fyrir að hópurinn ljúki störfum sínum 1. nóvember nk.
Niels Chr. Nielsen er falið að veita starfshópnum forystu.
Úttektin tekur sérstaklega til eftirfarandi þátta:
Viðskiptalíkan: Þessar einingar starfa nú allar eftir mismunandi viðskiptalíkani. Þær eiga það þó sameiginlegt að veita deildum spítalans þjónustu auk þess sem þær veita allar umtalsverða þjónustu út fyrir stofnunina. Nauðsynlegt er að þessar einingar séu allar reknar eftir sama viðskiptalíkani og því þarf að huga að samræmingu hvað þetta varðar.
Reikningagerð og innheimta: Margvíslegir erfiðleikar hafa verið í gerð og innheimtu reikninga vegna rannsókna. Þar koma til erfiðleikar við að tengja saman tölvukerfi rannsóknardeilda og bókhaldskerfi spítalans og einnig vantar töluvert upp á að starfsmenn gæti þess að á öllum beiðnum um rannsóknir þarf að taka fram hver greiðir fyrir rannsóknina.
Rekstrarvörur – innkaup og útboð: Þessar einingar eru allar háðar því að kaupa inn rekstrarvörur til rannsókna. Á LSH hefur náðst mikill árangur við að lækka rekstrarkostnað með því að bjóða út kaup á rekstrarvörum í stórum einingum. Nauðsynlegt er að láta reyna á til fulls að ná hagstæðari innkaupum í rekstrarvörum til rannsókna.
Fjöldi starfsmanna: Þessar einingar eru aðalvinnustaður náttúrufræðinga og meinatækna á LSH. Mikilvægt er að samræma túlkun kjarasamninga þeirra á þessum einingum hvað varðar röðun í starfsheiti, launaflokka, yfirvinnu. Þetta á og við um aðra starfsmenn.
Móttaka og dreifing sýna: Allar þessar einingar taka á móti sýnum til rannsókna jafnt innan spítalans sem utan. Þessa móttöku sýna kann að vera hagkvæmt að skipuleggja og samþætta. Þar sem starfsemi spítalans er mjög dreifð er til mikils að vinna að skipuleggja dreifingu sýna á hagkvæman og öruggan hátt.
Tækjabúnaður: Nauðsynlegt er að skrá og taka út tækjabúnað þessara eininga. Í framhaldi af því er mögulegt að skipa sérstakan tækjahóp sem gerir tillögu um samnýtingu tækjabúnaðar.
Samþætting þjónustu: Tryggja þarf að rekstrareiningar og starfsemi eininganna sé sem best skipulögð miðað við þær aðstæður er ríkja í dag, það er að klínísk starfsemi fer fyrst og fremst fram í tveimur húsum og að öllum starfsstöðvum sé jafn vel sinnt.
Fjárhagslegt sjálfstæði eininga: Þær einingar sem hingað til hafa haft meira sjálfstæði, það er Blóðbankinn og RÍM, hafa lýst áhyggjum sínum yfir því að sá árangur sem hefur náðst í rekstri þeirra verði notaður til að greiða niður hugsanlegan hallarekstur á öðrum deildum. Starfshópnum er falið að koma með tillögur sem hjálpa til við að sýna fram á hvernig megi bera rekstur eininganna saman milli ára og halda utan um það hvaða eining hafi komið með hvaða fjármagn inn í sameiginlegan rekstur þeirra.
Sem fyrr segir, er starfshópnum falið að kalla til sín sviðsstjóra, yfirlækna og annað starfsfólk spítalans til samstarfs eftir þörfum, þ.m.t. starfsfólk stjórnsýslusviða.
Virðingarfyllst
________________________________
Jóhannes M. Gunnarsson
forstjóri LSH
________________________________
Jóhannes M. Gunnarsson
forstjóri LSH