Fréttatilkynning 6. febrúar 2003
Gjafa- og styrktarsjóður Jónínu S. Gísladóttur
Stjórn Gjafa- og styrktarsjóðs Jónínu S. Gísladóttur hefur ákveðið að verja árið 2003 rúmum 50 milljónum króna í þágu hjartalækninga á Landspítala - háskólasjúkrahúsi. Þetta fé kemur til viðbótar um 80 milljóna króna framlagi sjóðsins til hjartalækninga síðan stofnað var til hans í júlí 2000. Jónína S. Gísladóttir er ekkja Pálma Jónssonar í Hagkaupum og var sjóðurinn stofnaður með 200 milljóna króna framlagi hennar auk þess sem hún hefur styrkt sjóðinn enn frekar um 17 milljónir króna. Meginhlutverk sjóðsins er að efla hjartalækningar á Landspítala - háskólasjúkrahúsi.
Á árinu 2003 styrkir sjóðurinn eftirtalin verkefni:
Í fyrsta lagi var fyrir tilstuðlan sjóðsins keypt nýtt hjartaþræðingartæki fyrir Landspítala - háskólasjúkrahús árið 2000 og var það tekið í notkun í ágúst 2001. Sjóðurinn hefur lagt fram 40 milljónir króna vegna kaupanna, þar af 10 milljónir króna nú sem er jafnframt lokagreiðsla vegna kaupa á tækinu.
Í annan stað eru lagðar fram 12,5 milljónir króna til að koma á fót göngudeild fyrir hjartabilaða.
Í þriðja lagi eru lagðar fram 15 milljónir króna til kaupa á raflífeðlisfræðibúnaði til rannsókna og meðferðar á hjartsláttartruflunum.
Í fjórða lagi leggur sjóðurinn fram allt að 12,5 milljónir króna af kaupverði nýs ómtækis fyrir hjartaskurðlækningadeild.
Loks ver Gjafa- og styrktarsjóður Jónínu S. Gísladóttur 17 milljónum króna sérstaklega til kaupa á viðbótar vöktunarbúnaði á hjartalækningadeild spítalans.
Í stjórn Gjafa- og styrktarsjóðs Jónínu S. Gísladóttur eru synir hennar, Sigurður Gísli og Jón Pálmasynir, Helgi V. Jónsson hrl. og löggiltur endurskoðandi, Magnús Pétursson forstjóri Landspítala - háskólasjúkrahúss og Guðmundur Þorgeirsson sérfræðingur í hjartalækningum, skipaður í samráði við framkvæmdastjórn spítalans. Guðmundur veitir upplýsingar um tilgang og notkun tækjanna.