Heilbrigðisstefna til framtíðar- á hvaða leið erum við? er yfirskrift opins kynningar- og umræðufundar, sem haldinn verður föstudaginn 10. mars 2006, kl. 14:00 - 16:30/17:00 í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands.
Tilefni fundarins er nýjar niðurstöður tveggja nefnda sem báðar fjalla um þau grundvallaratriði og lagaramma sem íslensku heilbrigðiskerfi er ætlað að mótast af á komandi árum. Fundurinn, sem fjalla mun um þau grundvallaratriði, hefst með ávarpi Sivjar Friðleifsdóttur heilbrigðisráðherra. Í upphafi verða nefndarálitin kynnt af formönnum nefndanna og lögð áhersla á að draga fram þær breytingar og nýmæli sem í þeim felast og munu hafa áhrif á komandi árum. Formaður nefndar um verksvið Landspítala - háskólasjúkrahúss og Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, Jónína Bjartmarz alþingismaður, mun kynna helstu niðurstöður sinnar nefndar og formaður nefndar um endurskoðun laga um heilbrigðisþjónustu, Guðríður Þorsteinsdóttir skrifstofustjóri í heilbrigðisráðuneytinu, kynnir helstu grundvallaratriði í drögum að frumvarpi um heilbrigðisþjónustu.
Eftir þá kynningu fjalla Axel Hall sérfræðingur Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands og Þorkell Helgason fv. aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra og núverandi orkumálastjóri stuttlega um nefndarálitin og þá framtíðarstefnu og framtíðarsýn sem í þeim felast. Tími gefst til fyrirspurna fundarmanna og umræðna.
Fundarstjóri verður Pálmi V. Jónsson sviðsstjóri lækninga á öldrunarsviði Landspítala - háskólasjúkrahúss.
Að fundinum standa heilbrigðisráðuneyti, Landspítali - háskólasjúkrahús og þrjár stofnana Háskóla Íslands; Stofnun stjórnsýslufræða, Hagfræðistofnun og Siðfræðistofnun.
Þessi opni fundur er sá fyrsti sem þessir aðilar hafa í hyggju að efna til um álitamál og framtíð íslenskrar heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstefnu frá samfélagslegu og siðfræðilegu sjónarhorni.
Staðið verður fyrir opnum fyrirlestrum og umræðufundum eftir því sem tilefni gefast.