Anna Stefánsdóttir hjúkrunarforstjóri
-erindi á starfsdegi deildarstjóra 21. október 2004
Kæru samstarfsmenn!
Á tímum breytinga eru leiðtogar lykilpersónur. Breytingar standa og falla með þeim. Við erum öll slíkar lykilpersónur enda eru nú miklir breytingatímar í okkar starfsumhverfi.
Samstarfsmenn horfa til okkar og skoðana okkar, hver afstaða okkar er til breytinga og hvernig við túlkum ákvarðanir og niðurstöður.
Við höfum bæði bein og óbein áhrif á framvindu breytinga. Við erum fyrirmyndir og þar með áhrifavaldar í lífi margra samstarfsmanna.
Ég hef að undanförnu rætt við nokkra hjúkrunarfræðinga sem hafa sóst eftir deildarstjórastarfi. Ég læri margt af slíkum viðtölum og sum þeirra eru mér eftirminnileg. Mig langar að segja ykkur frá einu slíku. Ég spurði viðkomandi hjúkrunarfræðing hvers vegna hún hefði sótt um þetta starf. Hún sagði;
"Ég var hvött til þess, deildarstjórinn minn hefur vakið áhuga minn á starfinu. Hún er skipulögð, hún hefur áhrif, hún er heiðarleg og hún lætur manni líða vel í vinnunni. Mig langar að takast á við þetta starf."
Svo hélt hún áfram; "ég ætlaði reyndar aldrei að fara að vinna við þessa hjúkrun. Þegar ég var í skólanum þá fannst mér þessi hjúkrun ekki áhugaverð en varð að fara á deild hérna í húsinu sem hluta af náminu.
En þegar ég hafði verið svona þrjá daga á deildinni hafði deildarstjórinn vakið áhuga minn á þessari hjúkrun. Hún gerði þetta starf svo skemmtilegt. Ég sá strax að hún kunni mikið og hafði hæfileika til að miðla því til okkar nemanna, hún gat fengið fólk með sér og sýndi okkur nemunum mikinn áhuga. Hún var sérstök og svo var hún svo áhugahvetjandi. Þannig að þegar ég útskrifaðist ákvað ég að fara að vinna við þessa hjúkrun.
Reyndar var ég ekki heppin með deildarstjóra í það skiptið. Hún var mikið svona að skreppa frá. Við vissum ekki alveg hvar við höfðum hana. Ég vil ekki vera svona deildarstjóri sem sér undir iljarnar á."
Hver vegna skyldi þessi hjúkrunarfræðingur hafa ákveðið að sækja um stöðu deildarstjóra, jú hún hafði fyrirmyndir – tvær sem hún vildi líkjast og eina sem hún vildi alls ekki líkjast.
Ég er þess fullviss að hver og einn hér inni á sér fyrirmynd sem meðvitað eða ómeðvitað hefur haft áhrif á atferli og þroskaferil ykkar á framabrautinni. Ég hvet ykkur til að hugsa um þessar fyrirmyndir.
Ég minnist móður minnar, hún var mín fyrsta fyrirmynd. Hún kenndi mér að framlag kvenna til samfélagsins skiptir sköpum og það
að takast á við aðra er í góðu lagi.
Ég minnist hjúkrunarkonu sem leiðbeindi mér fyrstu sporin á fyrstu deildinni minni í hjúkrunarnáminu, hún leysti viðfangsefni á jákvæðan hátt.
Hún veitti mér innblástur.
Ég minnist deildarhjúkrunarkonu á Kvennadeildinni. Hún stjórnaði öllu á deildinni á sinn sérstaka hátt, aldrei með hávaða en engum datt í hug að hreyfa mótmælum við hennar ákvörðunum. Hún naut líka mikillar virðingar hjá hjúkrunarkonum, ljósmæðrum og læknum fyrir framsýni, þekkingu og þrautseigju. Hún hafði skýra sýn yfir hjúkrun á sinni deild
Hún hvatti mig til að setja mér skýr markmið.
Ég minnist forvera míns, Vigdísar Magnúsdóttur hjúkrunarforstjóra. Hún óttaðist ekki stóra vinda og lét erfiðleikana ekki buga sig. Hún kunni að taka áhættu og hún átti marga fylgjendur.
Hún kenndi mér að taka áskorunum og hún kenndi mér þrautseigju.
Mikið hefur verið skrifað um leiðtogann, eiginleika hans og hlutverk - í raun svo mikið að maður verður hálf ráðvilltur við lesturinn.
En það sem eftir situr og ég hef lært af lestrinum er að leiðtogahlutverkið er samofið breytingum. Enn fremur að stjórnandi þarf að temja sér eiginleika leiðtoga og öfugt.
Sjálfsagt hafa einhverjir hér lesið bók Ásdísar Höllu Bragadóttur, Í hlutverki leiðtogans – líf fimm forystumanna í nýju ljósi. Í bókinni er talað við þessa einstaklinga.
Hefur einhver hér tekið einhvern þeirra sem fyrirmynd eða litið á einhvern þeirra sem mikinn leiðtoga?
Mér finnst gaman að grípa niður í bókinni og hef meira að segja staðið mig að því að bera mína reynslu og mín viðbrögð við aðstæðum saman við sumar lýsingar í frásögnum þessara einstaklinga.
Í samantekt Ásdísar Höllu, sem hún kallar Listin að vera leiðtogi, fjallar hún um hlutverk og einkenni leiðtoga. Ég ætla að nefna hér nokkur hlutverk úr umfjöllun Ásdísar Höllu. Hún vitnar í samantekt sinni m.a. til John Kotter og David Coleman.
Eitt veigamesta hlutverk leiðtogans er að hafa skýra sýn og setja sér markmið. Sýnin gefur starfi leiðtogans tilgang.
Í bókinni Leading Change eftir John P. Kotter um sýn leiðtogans kemur m.a. fram að
-sýnin þarf að vera myndræn og öllum skiljanleg
-sýnin þarf að vera eftirsóknarverð þannig að hún höfði til starfsmanna og viðskiptavina
-hún þarf að vera sveigjanleg svo frumkvæði einstaklinga fái notið sín
-hún þarf að vera markviss til að veitaleiðsögn í ákvarðanatöku
-hún þarf auðvitað að vera framkvæmanleg svo unnt megi verða að ná einhverjum markmiðum
Hafa úthald og þrautseigju
Leiðtogar leysa viðfangsefni, þeir láta ekki bugast, gefast ekki upp heldur leita þeir nýrra leiða til að leysa erfið viðfangsefni. Þeir rækta sjálfa sig og rækta með sér sjálfstraust en beita sig jafnframt aga.
Hafa víðsýni og sveigjanleika
Leiðtoginn þarf að eiga gott með að vinna með ólíkum einstaklingum, meta styrk fólks og taka tillit til ólíkra sjónarmiða.
Taka ákvarðanir
Eitt af veigamiklum hlutverkum leiðtoga er ákvarðanataka. Leiðtoginn viðkennir að hann gerir mistök og hann viðkennir einnig að hann hefur ekki svör við öllum gátum og því er nauðsynlegt að hlusta á ólík sjónarmið við ákvarðanatöku. Leiðtoganum tekst að virkja samstarfsfólk með árangursríkum hætti.
Eiga fylgjendur
Margir leiðtogar velja sér rétta samstarfsmenn - sem hafa aðra styrkleika en þeir sjálfir – beita jafnvel öðrum vinnuaðferðum. Þeim þarf að líða vel í návist samstarfsmanna sinna. Hjá Ásdísi Höllu Bragadóttur kemur fram að viðmælendum hennar er mikilvægt að eiga góða bandamenn og trúnaðarvini.
Vigdís Finnbogadóttir segir m.a. að leiðtoginn verði að búa yfir löngun til að miðla, hann verði að skilja hvað mannveran er flókin og honum verði að þykja vænt um fólk.
Geta lifað af í starfinu
Það er enn fremur mikilvægt hlutverk leiðtogans að þola óvissu og á stundum örvæntingu þegar á móti blæs. Þá er nauðsynlegt að geta fundið spaugilegu hliðina á málinu og að finnast starfið skemmtilegt, fyrir utan örvæntinguna. Þá kemur þrautseigjan sér vel.
En leiðtogar verða líka að eiga griðastað. Hlutverk leiðtoga er að taka sér tíma til að hugsa og vera í næði frá erli starfsins. Nauðsynlegt er að eiga af og til kyrrlátan dag við lestur eða gönguferðir til að lifa af.
Þekkja sjálfan sig
Mikilvægt er fyrir leiðtogann að þekkja eigin veikleika - viðurkenna þá og vinna með þá - þekkja einkenni sem virka heftandi, t.d. í mannlegum samskiptum. Hvaða aðstæður verða til þess að tilfinningarnar taka yfirráðin – þekkja þær aðstæður og vinna með þær sérstaklega.
Leiðtogar viðurkenna mistök sín og læra af þeim.
Kunna að hlusta á aðra
Samskipti eru eitt af stórum hlutverkum leiðtogans. Leiðtoginn má aldrei verða of upptekinn af að hlusta á sjálfan sig því þá missir hann af að heyra hvað samstarfmenn hafa að segja. Í raun eiga leiðtogar að draga fram umræðuefni en jafnframt að kunna að greina hismið frá kjarnanum.
Aðgreina hlutverk sitt og persónu
Leiðtogum er nauðsynlegt að aðgreina sína eigin persónu frá hlutverkinu – að öðrum kosti er erfitt að taka átök ekki persónulega. Mikilvægt er að persónugera ekki átök við aðra einstaklinga – og túlka viðbrögð einstaklinga sem viðbrögð vegna þeirrar stöðu sem viðkomandi er í en ekki vegna þeirra sem persónu.
Í lokin á þessari umfjöllun úr bók Ásdísar Höllu Bragadóttur eru hér nokkur spakmæli sem gott er fyrir leiðtoga að hafa í huga:
Florence – hafa kjark og þor - taka áskorunum
Nansen – framtíðarsýn og markmið
Brant – taka áhættu – óttast ekki óvissuna, leggja í breytingar
MaryAnn Fralic, prófessor í hjúkrun við John Hopkins háskólann í Baltimore fjallar í nýlegri grein um ný hlutverk eða skyldur leiðtoga í hjúkrun.
Hún heldur því m.a. fram að leiðtogar verði að hafa frumkvæði að nýtingu upplýsingatækni í hjúkrun. Þeir verði að hafa vitneskju um hvernig hún er notuð, geta rökstutt að upplýsingatæknin er mikilvæg fyrir framþróun í heilbrigðisþjónustunni og hvaða möguleika hún býður upp á fyrir hjúkrun. Nokkrir hér í salnum hafa viðmikla þekkingu á málaflokknum enda upplýsingatækni meginþema dagsins.
Árangursmælingar
MaryAnn Fralic segir að leiðtogar í hjúkrun taki ekki upp nýjungar eða geri breytingar án þess að mæla árangurinn af breytingunni. Við eigum nokkuð í land í því efni.
Gagnreyndir starfshættir eru staðreynd segir MaryAnn Fralic og leiðtogar í hjúkrun eiga að nýta sér slíka starfshætti og koma þeim í framkvæmd á sinni stofnun.
Teymisvinna – mun öflugri en við þekkjum víðast hvar um þessar mundir. Þverfagleg teymi þar sem hlutverk hvers og eins er vel skilgreint og hjúkrunarfræðingar eru oftar en ekki leiðtogar teymanna. Þeir taka áhættu og hafa þekkingu og þor til að innleiða nýja verkferla þar sem m.a. faghópar miðla þekkingu til hagsbóta fyrir teymið og gæði þjónustunnar. Leiðtoginn þarf að þjálfa hæfileika til samstarfs og upplýsingamiðlunar enn frekar þar sem teymisvinna er þungamiðjan.
Þroska hæfileikann til að tjá sig – efla málsnilld sína. Fralic segir það eitt af lykilatriðum leiðtogans að geta tjáð sig opinberlega, vera rökfastur í samskiptum og geta miðlað sýn sinni og markmiðum á trúverðugan hátt.
Síðast en ekki síst, segir Fralic, verður leiðtoginn í hjúkrun að skilja ungu kynslóðinaog geta breytt í samræmi við þarfir hennar. Við þekkjum öll þessa kynslóð og ég tek undir það sjónarmið að við verðum að breyta okkur og vinnubrögðum okkar til að nýta hæfileika næstu kynslóðar eigi stofnun okkar að halda áfram að þroskast og dafna.
Kæru samstarfsmenn. Leiðtogar eru hreyfiafl innan sinna stofnana. Við erum slíkt afl og það er skylda okkar að koma auga á leiðtogana í okkar samstarfsfólki og gefa þeim tækifæri til að blómstra.
Og að lokum eitt heilræði:
Ekki halda svo fast um daginn í dag að þú getir ekki rétt fram hendurnar til að grípa morgundaginn.
Anna Stefánsdóttir
hjúkrunarforstjóri