Gagnlegar nýjungar á gjörbreyttum heimavef
Nýr heimavefur Landspítala - háskólasjúkrahúss var opnaður föstudaginn 14. desember 2001 í matsalnum á Landspítala Ármúla. Hvor forvera Landspítala – háskólasjúkrahúss hafði sinn heimavef og Landspítalinn auk þess útvef. Við sameiningu spítalanna voru heimavefirnir tengdir saman til bráðabirgða. Síðan hefur markvisst verið unnið að því að þróa nýjan upplýsingavef fyrir spítalinn. Heimavefurinn lítur dagsins ljós núna, útvefur er væntanlegur síðla vetrar. Vefurinn er hannaður af Gagnasmiðjunni og hugbúnaðarfyrirtækinu Hugviti. Umsjón með verkinu hefur upplýsingafulltrúi og upplýsinganefnd um almannatengsl og fréttamiðlun.
Upplýsingavefur fyrir svo stóra og margbrotna stofnun sem Landspítala – háskólasjúkrahús er gríðarflókinn en hann er um leið mjög öflugt verkfæri til þess að miðla upplýsingum um starfsemina og varðveita þær. Það sem nú er kynnt til sögunnar er langt frá því að vera fullskapaður vefur og reynd eru lifandi vefir aldrei skapaðir í endanlegri mynd. Þetta er hins vegar tæki sem á að hafa alla burði til þess að gera kleift að skapa efnismikla vefi sviða og deilda á sjúkrahúsinu, sem saman mynda eina og órjúfanlega heild. Það verkefni er að litlu leyti hafið en fer nú á fullan skrið.
Allt yfirbragð á heimavefnum gjörbreytist frá því sem nú er og fær nýjan heildarsvip. Breytingin á þó eftir að verða mun meiri þegar áfram verður vefað á sviðum og deildum. Gera má ráð fyrir því að magn upplýsinga aukist þá verulega.
Ástæða er til að benda á tvennt nýtt sem kemur með endurbættum heimavef, það er dagbók með viðburðum í spítalastarfinu og leitarmöguleika sem stórbatna frá því sem verið hefur.
Nýi vefurinn var opnaður á Landspítala Ármúla, að viðstöðddum starfsmönnum þar og fulltrúum Hugvits. Hér er með Magnúsi Péturssyni forstjóra hópur spítalafólks sem hefur unnið að mótun vefjarins, Ólafur Aðalsteinsson, Björn Guðmundsson, Jón Baldvin Halldórsson Jóhannes M. Gunnarsson og Lilja Stefánsdóttir.