Ársfundur LSH 2007
Kynning á ársreikningi 2006
Anna Lilja Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri fjárreiðna og upplýsinga
Skýringarmyndir með ársreikningi í heild
Heilbrigðisráðherra, stjórnarnefnd og aðrir fundarmenn!
Heilbrigðisþjónustan á Íslandi er samfélagslegt viðfangsefni. Við stöndum núna á krossgötum og verðum að ákveða hvaða stefnu á að taka í okkar heilbrigðiskerfi líkt og svo margar þjóðir í kringum okkur eru að gera. Landspítali - háskólasjúkrahús hefur á síðustu sjö árum aukið jafnt og þétt starfsemi sína vegna vaxandi fjölda Íslendinga, sérstaklega í röðum aldraðra, án þess að rekstrarkostnaður, á föstu verðlagi, hafi aukist. Framleiðni hefur því aukist jafnt og þétt en spítalinn kemst ekki mikið lengra í sparnaði og starfsemisaukningu án þess að tekjur hans aukist.
Ég mun hér á eftir kynna niðurstöður ársreiknings LSH ásamt helstu starfsemistölum og lykiltölum í rekstri og rekstrarumhverfi spítalans.
Þessar tölur sýna vel þróunina síðustu sjö árin í rekstri spítalans og hvert viðfangsefnið er nú sem óneitanlega vekur spurningar um hvert stefna skuli.
Ársreikningurinn er endurskoðaður og staðfestur af Ríkisendurskoðun.
Fjárheimildir og sértekjur ársins námu rúmum 31,9 milljörðum og heildargjöld námu 32,2 milljörðum og höfðu gjöldin hækkað um 10,9% á milli ára. Þar af eru launagjöld stærsti kostnaðarliðurinn, eða um tveir þriðju útgjaldanna. Rekstrargjöld, að meðtöldum S-merktum lyfjum, voru tæp 30% af heildargjöldum og eignakaup, viðhald og stofnkostnaður tæp 3%. Fjármagnsgjöld námu 37 milljónum. Gjöld umfram tekjur voru 290 milljónir eða 0,9% af veltu. | ||
Launagjöld hækkuðu um 10,8% á milli ára. Til þess að geta borið saman þróun launa hjá LSH við það sem gerist annars staðar í þjóðfélaginu er gerður samanburður á dagvinnulaunum ásamt vaktaálagi og álagsgreiðslum á LSH annars vegar og hins vegar launavísitölu opinberra starfsmanna og bankamanna og almennu launavísitöluna. Niðurstaðan er sú að þróun launa hjá LSH hefur verið nokkurn veginn í takt við vísitölurnar tvær. Dagvinnulaun jukust um 9,8%, yfirvinna um 20% og álagsgreiðslur og önnur laun um 3%. Þessi mikla hækkun yfirvinnukostnaðar sýnir hinn mikla vanda sem spítalinn glímir við, sem er skortur á starfsfólki. Manneklan gerir það að verkum að starfsmenn spítalans hafa þurft að bæta við sig umtalsverðri yfirvinnu, mun meiri en þeir vilja, og sem er að auki mjög kostnaðarsöm fyrir spítalann. Starfsmenn LSH eru um 3.3% af heildarfjölda starfsmanna á Íslandi. Spítalinn er háður ástandi á vinnumarkaði og þensla undanfarinna mánaða hefur verið spítalanum erfið. | ||
Rekstrargjöld jukust um tæp 12,3% sem er nokkru hærra en hækkun vísitölu neysluverðs. Hafa ber í huga að tæp 60% af rekstrargjöldum spítalans eru beint tengd gengi íslensku krónunnar. Gengisvísitalan hækkaði um 11,7% á milli áranna 2005 og 2006 og um 22% frá upphafi til loka 2006. Skýrir sú hækkun að mestu hækkun rekstrargjalda án S-merktra lyfja. Kostnaður við S-merkt lyf jókst um 23% á árinu sem rekja má til nýrra og dýrra lyfja, breyttra ábendinga annarra lyfja auk gengisbreytinganna. | ||
Rúmum 860 m.kr. var varið til eignakaupa, stofnkostnaðar og viðhalds á árinu. Þar af var 223 milljónum varið til meiriháttar tækjakaupa, 307 milljónir til minniháttar eignakaupa, rúmar 100 milljónir fóru til endurnýjunar á legudeildum spítalans og tæpar 80 í bætta starfsaðstöðu. Tækjakaup sjúkrahússins eru að stórum hluta gerð með gengisbundnum samningum og er því gengisáhætta veruleg eins og að því er innkaup rekstrarvara varðar. | ||
Uppsafnaður rekstrarhalli skv. efnahagsreikningi er 777 m.kr. og hafði hækkað frá því að vera 487 milljónir í lok 2005. Skammtímakröfur voru 855 milljónir og hafa þær hækkað heldur á milli ára m.a. vegna mikillar skuldasöfnunar annarra heilbrigðisstofnana en staða skulda þeirra um áramótin var á þriðja hundrað milljónir. LSH á erfitt með að fjármagna halla annarra heilbrigðisstofnana sem m.a. veldur auknum dráttavaxtakröfum á spítalann vegna aukinna vanskila við birgja. Skammtímaskuldir voru 1.962 milljónir og hafa þær hækkað um rúmar 400 milljónir á milli ára vegna erfiðrar greiðslustöðu. | ||
Starfsemi Landspítala - háskólasjúkrahúss er margþætt og umfangsmikil og mun ég sýna nokkrar lykiltölur í starfsemi spítalans síðustu árin auk þess að deila með ykkur nokkrum athyglisverðum upplýsingum varðandi þróun í sjúkdómaflokkum sem m.a. tengjast beint ört vaxandi fjölda aldraðra. Ég vil auk þess benda á nýútkomna ársskýrslu spítalans og hinar mánaðarlegu Starfsemisupplýsingar sem eru aðgengilegar á vef spítalans. Fyrst er athyglisvert að skoða þróun kostnaðar frá 1999, eða árinu fyrir sameiningu spítalanna. Á föstu verðlagi hefur rekstrarkostnaður LSH nokkurn veginn staðið í stað í sjö ár. Og sem hlutfall af vergri landsframleiðslu hefur hlutur LSH minnkað. Einnig sem hlutfall af ríkisútgjöldum og útgjöldum til heilbrigðismála. Árið 2006 var tæplega 28% heilbrigðisútgjalda varið til reksturs spítalans en tæp 30% á árinu 2000. Þegar hlutfall fjárveitinga LSH og vergrar landsframleiðslu er skoðað þá sést að 2,8% rann til spítalans árið 2000 en 2,6% á síðasta ári. Þessar tölur sýna að vegna þess að raunkostnaður við rekstur LSH hefur verið óbreyttur í sjö ár þá hefur spítalinn ekki fylgt hækkun landsframleiðslu og því fer minni hluti þjóðarkökunnar til reksturs spítalans nú en fyrir sjö árum. Ef sama hlutfall af vergri landsframleiðslu rynni til LSH nú eins og það var á árinu 2000 þá væri fjárveiting til spítalans tæpum 2.000 milljónum hærri en hún er nú. Ef borið væri saman hlutfall af vergri landsframleiðslu árið fyrir sameiningu spítalanna í Reykjavík, þ.e. 1999 þá væri fjárveitingin nú 2.500 milljónum hærri en nú er. | ||
Í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á árangri sameiningar á árunum 1999 - 2004 kom m.a. fram að framleiðni vinuuafls á spítalanum hafði aukist um 12,6% á þessum árum. Með sömu aðferð við útreikninga var bætt við árunum 2005 og 2006 og niðurstaðan kemur fram á myndinni, þ.e. framleiðni vinnuafls hefur haldið áfram að aukast. Framleiðni rekstrarkostnaðar hefur einnig aukist frá 1999 en athygli vekur lækkun á síðasta ári sem sýnir líklega að LSH hefur spennt bogann um of. Í ljósi fyrrgreindra fjárhagsupplýsinga er athyglisvert að líta næst á starfsemistölur spítalans og almenn viðmið sem lýsa því vel hvert við erum að stefna. | ||
Fjölgun Íslendinga og aldursdreifing hefur mikil áhrif á starfsemi spítalans. Myndin sýnir glöggt hvernig þróunin hefur verið í íbúafjölda á höfuðborgarsvæðinu og sér í lagi hina miklu fjölgun í aldursflokkunum 80 ára og eldri, sem er græna línan á myndinni. Fjölgun þessa hóps er tæp 17% á þessu tímabili. Gráa línan sýnir fjölgun einstaklinga sem leituðu til Landspítala þessi ár og sú rauða sýnir þróun raunfjárveitinga til spítalans á föstu verðlagi án stofnkostnaðar. Þar sést lækkun fjárveitinga á árinu 2004 en það ár var mikil sparnaðarkrafa sett á spítalann. Glöggt má sjá hvað þróun fjárveitinga á þessum árum er úr takti við þróun eftirspurnar eftir þjónustu spítalans. | ||
Athyglisvert er að skoða nánar þróun í starfseminni í samanburði við fjárveitingar. Eins og kemur fram á grænu línunni á línuritinu þá hefur komum á slysa- og bráðadeildir fjölgað stöðugt og tengist það m.a. auknum íbúafjölda á höfuðborgarsvæðinu. Hefur þessi fjölgun verið 31% á tímabilinu. Eins og önnur vestræn háskólasjúkrahús hefur LSH markað sér þá stefnu að byggja upp öfluga þjónustu utan legudeilda og jafnvel í heimahúsum og er æ flóknari meðferð veitt með slíkum hætti. Bláa línan sýnir komur á dag- og göngudeildir og sú gráa sýnir vitjanir í heimaþjónustu. Á síðustu fimm árum hefur vitjunum í heimaþjónustu fjölgað um 38% og komum á dag- og göngudeildir um tæp 25%. Hins vegar hefur innlögnum á legudeildir fækkað nokkuð og er það í takt við það sem gerist erlendis. Svarta línan sýnir fækkun á innlögnum á legudeildir. Fækkun innlagna verður þó að skoða í samhengi við fjölgun eldri borgara í þjóðfélaginu í ljósi þess að eldri sjúklingar þurfa iðulega lengri legutíma og þar með fleiri legudaga. Frá 2003 - 2006 hefur hlutfall 80 ára og eldri í innlögnum á LSH aukist um 10% og sú þróun mun halda áfram. Hlutfall bráðra innlagna hefur aukist. Sjúklingar sem leggjast inn brátt eru mun veikari en þeir sem leggjast inn af biðlistum og endurspeglast það í hækkun á bráðleika sem er mælikvarði á veikindi sjúklinga og lýsir því hve mikla hjúkrun þeir þurfa og kallar því aukinn bráðleiki á aukna mönnun. Rauða línan er sem fyrr þróun fjárveitinga án stofnkostnaðar. | ||
Fjöldi fæðinga eykst jafnt og þétt í takt við fjölgun íbúa og hefur þeim fjölgað um 10% á tímabilinu. Skurðaðgerðum hefur einnig fjölgað nokkuð. Þá má nefna að hjartaþræðingum hefur fjölgað um ríflega 90% á þessum árum og er það m.a. vegna kransæðamyndatöku sem tekin hefur verið upp utan spítalans og kallar iðulega á frekari greiningu með hjartaþræðingu. Þrátt fyrir nærri tvöföldun á hjartaþræðingum á fjórum árum hefur fjölgað á biðlistum eftir hjartaþræðingu. | ||
Samfara aukinni eftirspurn eftir þjónustu spítalans og með þróun nýrra greiningar- og meðferðarmöguleika hefur umfang myndgreiningarrannsókna og blóðrannsókna aukist umtalsvert. Á tímabilinu fjölgaði myndgreiningarrannsóknum, sem er sýnd með svörtu línunni á myndinni, um 11% og blóðrannsóknum, sem er gráa línan, um 16,5%. Þróun fjárveitinga er sem fyrr sýnd með rauðu línunni. | ||
Þróun í tíðni sjúkdóma hefur óneitanlega mikil áhrif á starfsemi sjúkrahússins. Meðfylgjandi mynd, sem fengin er frá Krabbameinsfélaginu, sýnir tíðni krabbameina eftir aldri á tímabilinu 2000 - 2004. Áberandi er hve mikil aukning hefur orðið á tíðni krabbameins almennt og hve mikil aukning verður með hækkandi aldri, einkum eftir 60 ára aldur. | ||
Horfur sjúklinga með krabbamein batna sem betur fer stöðugt eins og sést á þessari mynd. Það er að hluta vegna áðurnefndra krabbameinslyfja sem eru í flokki S-merktra lyfja. Tíðni margra annarra sjúkdóma eykst jafnt og þétt, ekki síst vegna vaxandi fjölda aldraðra og hefur það áhrif á starfsemi spítalans nú og mun ekki síður hafa áhrif á næstu árum. Má þar nefna sem dæmi umtalsverða fjölgun liðskiptaaðgerða og æðaskurðaðgerða, fjölgun sjúklinga með ýmsa öndunarfærasjúkdóma og gigtsjúkdóma auk vaxandi eftirspurnar eftir endurhæfingu og þjónustu öldrunarlækningadeilda. Einnig má nefna aðra áhrifaþætti eins og tíðni offitu sem hefur áhrif á tíðni sykursýki sem aftur hefur áhrif á fjölda sjúklinga með nýrnamein sem eykur þörfina fyrir blóðskilun og nýrnaígræðslu. Svona mætti lengi telja. | ||
Ljóst er af því sem komið hefur fram að við erum á krossgötum hvað heilbrigðisþjónustu varðar. Eftirspurnin hefur verið og mun halda áfram að stóraukast og hefur spítalinn jafnt og þétt aukið starfsemina. Landspítali - háskólasjúkrahús hefur fjármagnað aukna starfsemi með hagræðingu í rekstri sem að stórum hluta var möguleg vegna sameiningar spítalanna í Reykjavík. Einnig hefur reksturinn verið endurskipulagður, verkferlar endurskoðaðir og farið hefur verið ofan í saumana á þjónustunni. Fjármagna þarf aukna starfsemi á þessu ári og á næstu árum eða takmarka þjónustu. Hvaða leið viljum við velja? Viljum við auka hlut heilbrigðismála af ríkisútgjöldum? Viljum við auka kostnaðarþáttöku almennings? Ef svo er, viljum við þá fara tannlæknaleiðina sem gæti auðveldlega náð til annarra sérgreina? Viljum við fá meira gjafafé inn í reksturinn? Viljum við fara dönsku leiðina með ákveðna lágmarkssamtryggingu þannig að samfélagið greiði ákveðna þjónustu og einstaklingar greiði fyrir viðbótarþjónustu? Viljum við fara hollensku leiðina sem þýðir val á tryggingum umfram lágmarkssamfélagsþjónustu? Við heyrum á eftir um bresku leiðina sem við getum eflaust lært af. Ljóst er að ákveða þarf stefnuna sem við förum því núverandi tilhögun fjárveitinga gagnast alls ekki lengur. Á meðan spítalinn heldur áfram að mæta aukinni eftirspurn með aukinni starfsemi án þess að aukið fé fáist inn í reksturinn þá verður vaxandi halli á rekstrinum. Spítalinn þarf leiðsögn um þá leið sem þjóðfélagið vill fara á þeim krossgötum sem við stöndum á þessa stundina. Mannnúðarsjónarmið hafa alltaf verið í hávegum höfð á Landspítala en sparnaðarkrafa síðustu ára hefur þrengt mjög að starfseminni. Starfsfólk spítalans hefur lagt sig fram um að veita frábæra þjónustu þrátt fyrir erfiðar aðstæður eins og kemur fram í ánægjulegum niðurstöðum könnunar Capacents um ánægju sjúklinga á LSH. En þversögnin sem mætir starfsfólki á hverjum degi í vinnu sinni er annars vegar sú að starfsemi spítalans er drifin áfram af mannúðarsjónarmiðum og hins vegar sú krafa um að rekstrarkostnaður spítalans rúmist innan ramma fjárlaga. Fjárlaga sem eru í engum takti við þróun íbúafjölda, fjölda aldraðra og þróun sjúkdóma. Eftir að framleiðslumælikerfin voru innleidd á spítalanum og kostnaðargreining fór fram þá getum við séð hvað hver sjúklingur kostar á spítalanum hverju sinni og hverjar tekjurnar fyrir sjúklinginn hefðu verið værum við í fjárveitingarkerfi þar sem tekjur fylgdu verkefnum. Og ef kostnaður við meðferð sjúklings er mjög hár, eins og t.d. þegar lyfjakostnaður fyrir einn sjúkling hefur náð 50 m.kr. þá verður þversögnin enn ljósari. Krafan er hallalaus rekstur en krafan er líka að Landspítali sé bundinn mannúðarsjónarmiðum og beri ríka samfélagsskyldu. Ég spurði í fyrra og spyr aftur núna, "á spítalinn að fórna fjármunum í þágu mannúðar? Eða á að fórna mannúð í þágu fjárhagslegrar afkomu?" Takk fyrir |