Ólafur Steingrímsson valinn
sviðsstjóri á Rannsóknarstofnun LSH
Ólafur Steingrímsson dósent, sérfræðingur á sýklafræðideild og fyrrverandi yfirlæknir hennar, hefur verið valinn til að gegna næstu þrjú ár starfi sviðsstjóra á Rannsóknarstofnun Landspítala - háskólasjúkrahúss en hún tekur til starfa 1. september 2001. Ólafur hefur verið forstöðumaður Rannsóknarstofnunar Landspítalans en henni tilheyrðu blóð-, meinefna-, ónæmis-, sýkla- og veirufræðideildir.
Fimm rannsóknarstofur falla undir skipulag Rannsóknarstofnunar Landspítala - háskólasjúkrahúss. Þær eru blóðmeinafræðideild, meinefnafræðideild, ónæmisfræðideild, sýklafræðideild og veirufræðideild.
Stjórnskipulag Rannsóknarstofnunar LSH verður með svipuðum hætti og sviðsstjórnir klínískra sviða. Það sem skilur rekstur Rannsóknarstofnunar LSH frá rekstri annarra klínískra sviða er helst það, að tekjur hennar ákvarðast að verulegu leyti af gjaldskrá sem gildir frá 1. september um þjónustuna. Forstjóri og framkvæmdastjóri lækninga velja sviðsstjóra. Forstjóri ræður yfirlækna í samráði við framkvæmdastjóra lækninga og sviðsstjóra til þess að stýra einstökum deildum.
Sviðsstjóri Rannsóknarstofnunar Landspítala - háskólasjúkrahúss skal vera læknir með sérmenntun í einni þeirra sérgreina sem stofnunin fæst við. Hann er valinn til fjögurra ára í senn, eins og aðrir sviðsstjórar LSH. Við stofnunina starfar einnig rekstrarstjóri sem stýrir meðal annars skrifstofu Rannsóknarstofnunar LSH. Gert er ráð fyrir rekstrarstjórn sem í sitja auk sviðsstjóra, yfirlæknar deilda og rekstrarstjóri. Hlutverk hennar er að skipuleggja og gera áætlanir um heildarstarfsemi Rannsóknarstofnunar LSH. Yfirlæknar bera ábyrgð á rekstri sinna deilda gagnvart sviðsstjóra.
Framkvæmdastjórn Landspítala - háskólasjúkrahúss ákvað á fundi sínum 29. janúar 2001 að Rannsóknarstofnun Landspítalans við Hringbraut og rannsóknarstofa spítalans í Fossvogi, svo og rannsóknarstofur í sýkla og veirufræði í Fossvogi, yrðu sameinaðar í eina rannsóknarstofnun. Í framhaldi af því var skipuð nefnd sem undirbjó sameininguna. Í henni voru Niels Chr. Nielsen formaður, Þorvaldur Veigar Guðmundsson, Ólafur Steingrímsson, Ísleifur Ólafsson og Valur Sveinbjörnsson. Ritari og starfsmaður nefndarinnar var Gunnar Sveinsson.