Hjúkrunarforstjóri Landspítala - háskólasjúkrahúss hefur á árinu 2004 ráðið sex hjúkrunarfræðinga til starfa sem sérfræðinga í hjúkrun.
Hinn 12. febrúar 2003 samþykkti heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra endurskoðaða reglugerð frá 1993 um veitingu sérfræðileyfa í hjúkrun. Í reglugerðinni er m.a. kveðið á um hverjir geti kallað sig sérfræðinga í hjúkrun. Nýmæli í hinni endurskoðuðu reglugerð eru að nú er unnt að sækja um sérfræðileyfi á klínískum sérsviðum hjúkrunar. Á undanförnum árum hefur mikil umræða átt sér stað á Landspítala - háskólasjúkrahúsi um hlutverk og stöðu sérfræðinga í hjúkrun og er margt sem bendir til að nú á tímum mikilla breytinga hafi þörf fyrir sérfræðiþekkingu í hjúkrun aukist. Því var það mikið fagnaðarefni þegar heilbrigðisráðherra undirritaði áðurnefnda reglugerð.
Sérfræðingur í hjúkrun hefur sértæka þekkingu, framhaldsmenntun og færni til að leysa viðfangsefni er lúta að hjúkrun sjúklinga og fjölskyldna þeirra og þverfaglegri samvinnu vegna þjónustu við sjúklinga. Sérfræðingur í hjúkrun stundar rannsóknir og stuðlar að nýtingu rannsóknarniðurstaðna í hjúkrun. Sérfræðingur í hjúkrun starfar samkvæmt starfslýsingu fyrir sérfræðinga í hjúkrun á LSH.
Meginhlutverk sérfræðinga í hjúkrun er hjúkrun, fræðsla, ráðgjöf, rannsóknir og starfsþróun. Ásamt öðrum hjúkrunarfræðingum ber sérfræðingur í hjúkrun ábyrgð á að sjúklingar njóti bestu hjúkrunar sem möguleg er á hverjum tíma. Enn fremur stuðlar sérfræðingur í hjúkrun að auknum gæðum hjúkrunar og er frumkvöðull og leiðtogi.
Þessir hjúkrunarfræðingar gegna nú starfi sérfræðings í hjúkrun á LSH en störfin voru auglýst á árinu:
Nanna Friðriksdóttir sérfræðingur í krabbameinshjúkrun – hjúkrun sjúklinga með krabbamein; lyflækningasviði II
Guðbjörg Guðmundsdóttir sérfræðingur í krabbameinshjúkrun – hjúkrun sjúklinga með illkynja blóðsjúkdóma; lyflækningasviði II
Auður Ketilsdóttir sérfræðingur í hjúkrun hjartasjúklinga; lyflækningasviði I
Anna Gyða Gunnlaugsdóttir sérfræðingur í hjúkrun sjúklinga með verki; svæfinga-, gjörgæslu- og skurðstofusviði
Arna Skúladóttir sérfræðingur í barnahjúkrun, með undirsérgreininni svefn og svefnvandamál barna; barnasviði
Bára Heiða Sigurjónsdóttir sérfræðingur í barnahjúkrun – hjúkrun langveikra og hjartveikra barna; barnasviði
Sérfræðingar í hjúkrun eru til ráðgjafar á öllum sviðum og deildum sjúkrahússins vegna hjúkrunar á þeirra sérsviði og eru starfsmenn hvattir til að leita til þeirra.