Jón Aðalbjörn Jónsson hjúkrunarfræðingur hannaði merkið hér fyrir ofan og færði Landspítala-háskólasjúkrahúsi að gjöf í tilefni göngunnar gegn umferðarslysum. |
Hjúkrunarfræðingar á Landspítala - háskólasjúkrahúsi ætla að efna til fjöldagöngu milli tveggja sjúkrahúsa í Reykjavík næstkomandi þriðjudag 26. júní, til að minnast þeirra sem farist hafa í umferðinni og sýna samhug og samstöðu með þeim sem slasast hafa alvarlega. Markmiðið er að vekja þjóðina til umhugsunar um alvarlegar afleiðingar hraðaksturs og þess að aka bíl undir áhrifum áfengis, fíkniefna eða lyfja. Haldið verður frá sjúkrabílamóttöku Landspítalans við Hringbraut, Eiríksgötumegin, kl. 17:00. Gengið verður framhjá Björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð þar sem slökkviliðsmenn og sjúkraflutningamenn slást í för með hópnum, en gangan endar við þyrlupall sjúkrahússins í Fossvogi. Áætlað er að atburðurinn taki eina klukkustund. Hjúkrunarfræðingar munu bera rauðar blöðrur en sjúkraflutningamenn svartar, 31 talsins, sem tákn fyrir þá sem létust í umferðinni á síðasta ári. Blöðrunum verður sleppt til himins á áfangastað. Sjá nánari upplýsingar og dagskrá í fréttatilkynning frá frumkvæðishópi hjúkrunarfræðinga á LSH (pdf) Allir sem möguleika hafa, eru eindregið hvattir til að taka þátt í göngunni. |
Ganga gegn slysum
Hjúkrunarfræðingar á LSH efna til fjölda göngu milli tveggja sjúkrahúsa í Reykjavík, frá Hringbraut út í Fossvog