Mörg ríki innan Evrópusambandsins byrjuðu að gefa út nýtt Evrópskt sjúkratryggingakort 1. júní 2004. Þessi kort koma í staðinn fyrir sjúkratryggingavottorðin E-111 og E-128. Um leið hætta þau að gefa út þessi vottorð í pappírsformi. Í síðasta lagi frá janúar 2006 verða öll ríki á Evrópska efnahagssvæðinu (EES) komin með svona kort.
Þessu fylgir sú breyting að ríkisborgarar EES ríkja eiga rétt á að fá heilbrigðisþjónustu gegn sama gjaldi og þeir sem tryggðir eru hér á landi þegar um er að ræða aðstoð sem telst nauðsynleg af læknisfræðilegum ástæðum meðan á dvöl stendur, sé mið tekið af eðli aðstoðarinnar og áætlaðri tímalengd dvalarinnar. Það er óbreytt að þetta gildir ekki þegar tilgangur komu til landsins var að fá læknismeðferð/heilbrigðisaðstoð.
Þau ríki sem ekki gefa út Evrópskt sjúkratryggingakort að svo stöddu gefa nú út nýtt einfaldara E-111 vottorð. Eldri gerð vottorðanna er fallin úr gildi. Þetta þýðir að til 31. desember 2005 geta verið nokkrar gerðir sjúkratryggingavottorða í umferð á EES, Evrópskt sjúkratryggingakort, bráðabirgðavottorð, einfaldari gerð af E-111, eldri gerð E-111 og E-128. Ríkisborgarar á EES, aðrir en ríkisborgarar Norðurlandanna, þurfa að framvísa einhverju af þessum gögnum ásamt vegabréfi. Þeir sem eru búsettir og tryggðir á Norðurlöndum þurfa þó eingöngu að framvísa skilríkjum sem staðfesta búsetu á Norðurlöndum.
Nánari upplýsingar á vef Tryggingastofnunar ríkisins, www.tr.is.