Sviðsstjóri verður aðstoðarmaður ráðherra
Elsa B. Friðfinnsdóttir hefur verið ráðin aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra. Hún tekur til starfa innan skamms en Þórir Haraldsson sem gegndi starfi aðstoðarmanns hefur verið ráðinn að Íslenskri erfðagreiningu. Elsa hefur verið sviðsstjóri hjúkrunar á skurðlækningasviði síðan haustið 2000 en fær leyfi frá því starfi. Hún var hjúkrunarframkvæmdastjóri fræðslu- og rannsóknardeildar hjúkrunar á Landspítalanum frá 1999 til 2000. Frá 1997 til 1999 var Elsa forstöðumaður heilbrigðisdeildar Háskólans á Akureyri. Hún hefur verið lektor við Háskólann á Akureyri frá 1991. Elsa B. Friðfinnsdóttir lauk prófi í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands árið 1984, meistaraprófi í kennslu og rannsóknum frá Háskólanum í Bresku Kólumbíu í Vancouver í Kanada árið 1995 og heilsuhagfræði frá Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands árið 1997.