Kæru hjúkrunarfræðingar!
Á þessu ári fagna hjúkrunarfræðingar tímamótum í sögu hjúkrunar á Íslandi. 85 ár eru liðin frá því að frumherjar úr okkar stétt stofnuðu Fjelag íslenskra hjúkrunarkvenna og 10 ár eru liðin frá sameiningu Hjúkrunarfélags Íslands og Félags háskólamenntaðra hjúkrunarfræðinga í Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga. Félagið hefur ákveðið að dagurinn í dag 15. janúar verði upphafsdagur afmælisársins.
Erfitt er að gera sér í hugarlund hver voru langtímamarkmið þessarra ötulu kvenna við upphaf síðustu aldar og hvaða væntingar þær höfðu fyrir hönd hjúkrunar og framlags hjúkrunarfræðinga til samfélagsins. Hitt er deginum ljósara að stofnun félagsins var veigamikið skref fyrir hinn fámenna hóp hjúkrunarkvenna og ekki síður fyrir íslenskt samfélag fyrr og síðar. Það þurfti dug, kraft og einurð hjá stúlkum að brjótast til mennta og um margt ganga gegn hefðbundnum viðhorfum þeirra tíma. Hjúkrunarstarfið gerði þá eins og nú miklar kröfur til þeirra sem það stunduðu, vinnutími langur, aðstæður oft erfiðar og metnaður til að gera sitt besta ætíð í forgrunni.
Strax við stofnun félagsins var sýnt að metnaður fyrir hönd hjúkrunar var mikill því eitt af markmiðunum var að efla skilning á nauðsyn þess að hafa vel menntaðar hjúkrunarkonur í starfi í landinu.
Hollt er á þessum tímamótum að minnast formæðra okkar sem ruddu veginn og byggðu þann grunn sem starf okkar hvílir á í dag. Ekki er síður mikilvægt að berja sér á brjóst vegna þess árangurs sem við höfum náð á undanförnum árum og áratugum með þrautlausri vinnu og eljusemi.
Í mínum huga eru það nokkrir þættir sem hafa haft hve mest áhrif á breytingu og þróun hjúkrunar frá þeim tíma sem hér um ræðir til okkar dags. Í fyrsta lagi formleg stofnun Hjúkrunarkvennaskóla Íslands, í öðru lagi þegar allt hjúkrunarnám fluttist í Háskóla Íslands, í þriðja lagi þegar hjúkrun, með lagabreytingu, hlaut viðurkenningu sem sjálfstæð fræðigrein undir stjórn hjúkrunarfræðinga, í fjórða lagi sameining félaganna í Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga og nú síðast reglugerð um veitingu sérfræðileyfis í hjúkrun.
Ég er þess fullviss að aukið samstarf milli Landspítala og hjúkrunarfræðideildar Háskóla Íslands og aukið framboð á menntunarmöguleikum hjúkrunarfræðinga með diplomanámi og klínísku meistaranámi á eftir að efla og styrkja íslenska hjúkrunarfræðinga og bæta meðferðir í hjúkrun. Ákveðið hefur verið að beita eftir því sem kostur er gagnreyndum starfsháttum í hjúkrun á Landspítala og mikið starf er framundan í þeirri vinnu, starf sem í raun aldrei tekur enda. Allt skilar það betri hjúkrunarmeðferð. Sérfræðingar í hjúkrun verða þar í lykilhlutverkum.
Við lifum nú mikla umbrotatíma í heilbrigðisþjónustunni, umbrotatíma í okkar nánasta vinnuumhverfi. Áhyggjur af afdrifum skjólstæðinga okkar hvíla á okkur dag hvern. Það er eðlilegt að neikvæðni sæki á hugann við þær aðstæður. Kröfurnar eru miklar og við eigum sífellt að gera meira fyrir minna. Ábyrgðin er einnig mikil, sífellt reynt til hins ýtrasta að gera sitt besta á hverju sem gengur.
Við vitum að þörfin fyrir hjúkrun hefur fylgt manninum frá upphafi. Hvar sem er í veröldinni og á hvaða aldri og þroskastigi sem maðurinn er þá hefur hann sömu þarfir. Auk þess að þarfnast næringar og skjóls er þörfin fyrir linun sársauka, þörfin fyrir öryggi og kærleika, þörfin fyrir að vera metinn að verðleikum og þörfin fyrir von og trú og að hafa tilgang með lífinu það sem skiptir manninn miklu í veikindum jafnt sem í heilbrigði. Þessar þarfir voru og eru meginviðfangsefni hjúkrunar. Þess vegna legg ég áherslu á að störf hjúkrunarfræðinga skipta sköpum eða eins og Christine Hancock formaður ICN sagði í lokaræðu á síðasta þingi samtakanna.
"Nurses bring comfort where there is pain, courage where there is fear, and hope where there is despair.
We heal, reassure, educate, inspire, and give confidence.
We are courageous and caring. No healthcare system can function without us".
Ég óska ykkar gæfu í leik og starfi á afmælisárinu.
Anna Stefánsdóttir hjúkrunarforstjóri Landspítala - háskólasjúkrahúss (LSH)