Aron Björnsson yfirlæknir heila- og taugaskurðlækninga segir að nýi tækja- búnaðurinn jafnist á við það sem gerist allra best í heiminum. Nýju tækin sem eru notuð við bæklunar- skurðaðgerðir |
Ný smásjá á heila- og taugaskurðlækningadeild Tekin hefur verið í notkun ný skurðsmásjá til notkunar við heila- og taugaaðgerðir á Landspítala Fossvogi. Smásjáin er af fullkomnustu gerð frá fyrirtækinu Carl Zeiss Surgical og leysir af hólmi eldri smásjá frá sama fyrirtæki. Smásjáin er eitt helsta vinnutæki heilaskurðlækna í dag og notuð við um það bil 600 aðgerðir á ári bæði á baki og heila. Tölvustýrt staðsetningartæki er nýjung á Íslandi Tekið hefur verið í notkun tölvustýrt staðsetningartæki (Navigation tæki) fyrir skurðaðgerðir. Tækið er frá fyrirtækinu Medtronic og af fullkomnustu gerð. Segja má að þetta sé sambærilegt GPS tækninni nema að verið er að staðsetja eitt og annað í mannslíkamanum en ekki götu eða hús. Tæknin er ný hér á landi og mun einkum nýtast í heila- og taugaskurðlækningum, bæklunarskurðlækningum og háls-, nef- og eyrnaskurðlækningum. Staðsetningartækið gerir aðgerðirnar nákvæmari og markvissari. Til dæmis er hægt að staðsetja lítið æxli með nákvæmni upp á allt að millimetra djúpt í heila og eftir atvikum fjarlægja það með meira öryggi en áður. Þetta gerir kleift að gera aðgerðir á sjúklingum hér sem áður þurftu að fara erlendis. Ofangreindur búnaður, smásjáin og staðsetningartækið, er staðsettur á skurðlækningadeild á Landspítala Fossvogi og kostaði um 65 milljónir króna. Hann var formlega tekinn í notkun á skurðstofunum á 5. hæð í Fossvogi að viðstöddum starfsmönnum og gestum. Aron Björnsson yfirlæknir sagði þar á myndrænan hátt frá tækjabúnaðinum og Magnús Pétursson forstjóri LSH flutti ávarp. |
Björn Zoëga bæklunarskurðlæknir og sviðsstjóri skurðlækningasviðs sýnir hvernig staðsetningartækið nýtist við bæklunaraðgerðir. |
Aron að finna "meint" æxli í heila. |
Staðsetningartækið og smásjáin sem eru notuð við aðgerðir í heila- og tauga- skurðlækningum. |