Heilbrigðisyfirvöldum og fleirum var í dag, 9. janúar 2004, sent bréf vegna deilu Læknafélags Reykjavíkur og Tryggingastofnunar ríkisins, undirritað af Magnúsi Péturssyni forstjóra LSH og Jóhannesi M. Gunnarssyni framkvæmdastjóra lækninga.
"Deila Læknafélags Reykjavíkur og Tryggingastofnunar ríkisins
Vegna deilu Læknafélags Reykjavíkur og Tryggingastofnunar ríkisins er viðbúið að einhver hluti þeirra sjúklinga sem leitað hafa til sérfræðinga á stofu muni leita annað þannig að komum sjúklinga fjölgi á heilsugæslustöðvar og til sérfræðinga Landspítala - háskólasjúkrahúss.
Landspítali - háskólasjúkrahús mun hér eftir sem hingað til sinna bráðveiku fólki á bráðamóttökum spítalans. Vænta má að sjúklingar með önnur vandamál en bráðavandamál leiti til heimilislækna eða á Læknavaktina. Þurfi heimilislæknir á sérfræðiaðstoð að halda getur hann haft samband við vakthafandi sérfræðing viðkomandi sérgreinar á LSH sem mun aðstoða eftir föngum.
Framkvæmdastjóri lækninga mun beina þeim tilmælum til yfirlækna að búa sig undir að leitað verði eftir aukinni þjónustu spítalans á næstu dögum. "